Gosið í Eyjafjallajökli virðist enn liggja niðri, samkvæmt minnisblaði frá Veðurstofu Íslands. Gufu leggur þó frá gosstöðvunum, en ekki er að sjá ösku í henni. Gufumökkurinn er tæplega 2 km að hæð. Óróinn heldur áfram að minnka og er að nálgast það sem hann var fyrir gos. Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni, en einn skjálfti hefur mælst í jöklinum frá miðnætti.
Engar tilkynningar um öskufall hafa borist í dag og engar eldingar hafa mælst á eldingamælum.
Í frétt frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra segir að mikil veðurblíða sé á Suðurlandi og að bjartsýni ríki í sveitunum umhverfis jökulinn. Vegna hugsanlegra gosloka var vinnufundi, sem vera átti á Hvolsvelli á morgun, frestað um óákveðinn tíma.