Undirbúa verkföll

Frá ársfundi Alþýðusambands Íslands nýlega.
Frá ársfundi Alþýðusambands Íslands nýlega.

„Það er mat fundarins alls og ég held að það séu engar ólíkar raddir í því að menn eru mjög ósáttir við það hvernig ekki hefur verið brugðist við þeim aðstæðum sem uppi eru í atvinnumálum,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, um yfirstandandi formannafund samtakanna. Hann segir menn undirbúa verkföll. 

Halldór segir, að ekki hafi verið brugðist við þeim tillögum og ábendingum sem ASÍ hafi komið með varðandi það með hvaða hætti ætti á að takast á við þau úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Þá eiga menn einkum og sér í lagi við atvinnumálin og atvinnuleysi.

„Menn gagnrýna ríkisstjórnina en svo sem líka pólitíska kerfið í heild sinni fyrir að vera vanmáttugt og í raun og veru ekki tilbúið til þess að takast á við þau úrlausnarefni sem eru að okkar mati langstærstu pólitísku úrlausnarefnin þessa dagana. Þannig auðvitað beinist þessi gagnrýni að ríkisstjórninni fyrst og fremst því hún er náttúrulega sá sem á að leiða þetta pólitíska kerfi en menn svo sem gagnrýna líka að það sé ekki mikil hjálp frá öðrum í þeim efnum.“

- Hvernig hefur samvinna stjórnvalda og ASÍ verið? 

„Við höfum náttúrulega svo sem bent á það áfram og ítrekað. Við höfðum ásamt Samtökum atvinnulífsins á sínum tíma frumkvæðið að því að það var farið í þessa vinnu við stöðugleikasáttmálann.

Þótt að þar hafi eitt og annað skilað sér með einhverjum hætti þá hefur hann alls ekki verið að skila því sem væntingar okkar stóðu til og við kennum þar ekki síst stjórnvöldum og ríkisstjórninni hvernig til hefur tekist. Menn eru sammála því að ríkisstjórnin virðist hafa ákaflega lítið forræði á þessum málum sem mestu skipta.“

- Þarf jafnvel nýjan stöðugleikasáttmála?

„Við höfum sagt að við ætlum ekkert efnislega að segja upp þessum sáttmála enda hefur það í sjálfu sér engan tilgang. Það er hins vegar alveg ljóst að samræðan í okkar aðildarfélögum og á þessum fundi formanna gengur út á það að það eru lausir kjarasamningar í haust.

Menn eru einfaldlega að ræða að það sé þá eðlilegast að fara að undirbúa þá samningagerð og nýta þá þær aðstæður og þá möguleika sem þá skapast,“ segir Halldór og vísar til haustsins.

„Menn segja líka gjarnan að það sé eins og stjórnvöld og aðrir taki okkur ekki alvarlega nema þegar á reynir í tengslum við kjarasamningagerð og þar er náttúrulega ljóst að þar getur allt orðið undir. Þá er okkar staða önnur en hún er á miðju samningstímabili.“

Halldór Grönvold er aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Halldór Grönvold er aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka