Bolungarvíkurgöng opnuð í september

Bolungarvíkurgöngin.
Bolungarvíkurgöngin. mynd/bb.is

Núna eru um þrír mánuðir þangað til Bolungarvíkurgöng verða tekin formlega í notkun. Vinna við göngin gengur vel. Upphaflega var stefnt að því að opna göngin 15. júlí, en nú er ljóst að þau verða ekki opnuð fyrir almennri umferð fyrr en í september.

Á vef Bolungarvíkurganga sem bb.is heldur úti er haft eftir Níels Reynissyni, gæðastjóra hjá Ósafli í Bolungarvík, að vinnan gangi vel. „Það er verið að vinna á fullu í vatnsklæðningum, ásprautun og við erum langt komnir með drenlagnirnar.“

Framundan er m.a. að malbika göngin ásamt ýmiskonar vegavinnu. Reiknað er með að byrjað verði að malbika um miðjan júlí og að sú vinna standi fram í ágúst.

Göngin verða 8,7 metra breið og 5,1 kílómetri að lengd. Kostnaður við göngin er áætlaður um 5 milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert