„Við erum búnir að innsigla og það verður væntanlega gerð krafa um það að þessi staður verði ekki notaður áfram til ólöglegrar starfsemi,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um söluturninn Drauminn við Rauðarárstíg. Eigandinn situr nú í gæsluvarðhaldi.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði hann í fimm daga gæsluvarðhald á föstudag. Það rennur út á miðvikudag.
Á fimmtudag var gerð húsleit í söluturninum og þar fannst töluvert magn lyfseðilsskyldra lyfja auk ólöglegs tóbaks. Þá var gerð húsleit á fjórum öðrum stöðum og í þeim aðgerðum fannst mikið magn af munn- og neftóbaki, lyfsöluskyldum lyfjum, lítilsháttar af fíkniefnum og nokkrar milljónir í peningum.
„Þetta er búið að koma upp nokkrum sinnum áður. Þetta er áfram í sama ferli. Hann lætur sér ekki segjast, og það gerir þetta sýnu alvarlegra núna. Við verðum að koma í veg fyrir að ólögleg starfsemi þrífist,“ segir Geir Jón í samtali við mbl.is.
Rannsókn málsins stendur enn yfir en hún er langt komin.
Enginn annar hafi verið handtekinn.