Ljósabekkjabann orðið að lögum

Alþingi hefur samþykkt að fólk undir 18 ára aldri megi …
Alþingi hefur samþykkt að fólk undir 18 ára aldri megi ekki nota ljósabekki, enda er ljósið úr þeim krabbameinsvaldandi. mbl.is

Fimm lagafrumvörp voru afgreidd sem lög frá Alþingi nú í hádeginu. Alþingismenn komu saman á fundi klukkan tólf og byrjuðu á því að greiða atkvæði um frumvörp um bann við afnotum ungmenna á sólarlömpum, um breytingu á hafnalögum, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum til að færa eftirlitshlutverk til Seðlabankans, um breytingu á fasteignasölulögunum til að fresta innheimtu eftirlitsgjalds og svo um breytingar á lögum um loftferðir.

Frumvarpið um sólarlampana, sem Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallaði „stóra ljósabekkjamálið" við atkvæðagreiðsluna, var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 10. Sex þingmenn greiddu ekki atkvæði. Stjórnarþingmenn sögðu skýrt að ljósið úr bekkjunum væri krabbameinsvaldandi. Ragnheiður Elín rengdi það ekki en efaðist hins vegar um að bannið hefði tilætluð áhrif.

Hin frumvörpin voru samþykkt samhljóða.

Þá voru fjögur frumvörp send til þriðju umræðu. Það voru frumvarp Katrínar Júlíusdóttur um upprunaábyrgð á raforku, frumvarp Árna Páls Árnasonar um skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starsfmanna þeirra og frumvörp Rögnu Árnadóttur um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands annars vegar og um aðför og gjaldþrotaskipti hins vegar.

Þá var Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra krafinn um skýrslu um stöðu gjaldeyrismarkaðarins og greiðslumiðlunar við útlönd, á tímabilinu 1. október 2008 til 31. janúar 2009. Það var efnahags- og skattanefnd, með Pétur H. Blöndal, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í fararbroddi, sem óskaði eftir skýrslunni og voru greidd atkvæði um það hvort skýrslubeiðnin skyldi leyfð. Samþykkt var að leyfa hana með 56 samhljóða atkvæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka