Gildistöku vatnalaga verður frestað til 1. október 2011. Samkomulag náðist um þetta milli stjórnar og stjórnarandstöðu í kvöld. Í samkomulaginu felst að frumvarp um breytingu á vatnalögum verður lagt fram í haust.
Ný vatnalög voru samþykkt árið 2006, en miklar deilur urðu um frumvarpið á þingi. Þáttur í samkomulag um afgreiðslu málsins var að gildistöku laganna var frestað til 1. júlí 2010. Iðnaðarráðherra lagði fram frumvarp í vor um að lögin yrðu afnumin, en stjórnarandstaðan var því andsnúin og lagði til að gildistökunni yrði frestað og reynt yrði að ná samkomulagi um þau atriði laganna sem mestur ágreiningur er um.
Stjórnarliðar féllust á þetta gegn því að önnur mál sem þeir leggja áherslu á fengju afgreiðslu á þessu þingi.
Iðnaðarráðherra
hefur kynnt frumvarpsdrög, sem nú er unnið að í ráðuneytinu, fyrir
iðnaðarnefnd ásamt
minnisblaði um þau skilgreindu atriði sem þarfnast frekari skoðunar og
vinnslu áður en hægt
er að leggja frumvarpið fram á Alþingi. Það eru einkum atriði sem lúta
að almannarétti og
skilgreiningu á nýtingarrétti. Til að ljúka þeirri vinnu hefur
iðnaðarráðherra leitað til hæstaréttarlögmannanna Karls Axelssonar og
Ástráðs Haraldssonar. Þeir munu í sameiningu fara
yfir frumvarpsdrögin út frá minnisblaði ráðherra í samráði við
lögfræðinga ráðuneytisins og
hópinn sem vann drögin og skila tillögum sínum í haust.