Telur ekki sjálfgefið að lánþegar losni við verðtrygginguna

Eyvindur G. Gunnarsson
Eyvindur G. Gunnarsson Sverrir Vilhelmsson

„Það er nokkuð ljóst að ef einhver hefur fengið þrjátíu milljónir króna að láni til fjörutíu ára til að kaupa hús hefði hann aldrei fengið óverðtryggt lán á 3% vöxtum,“ segir Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Telur hann ekki útilokað að samningum til lengri tíma sem innihalda ákvæði um gengistryggingu verði breytt með heimild í 36. grein samningalaga á þann veg að þau kveði á um lögmæta verðtryggingu við vísitölu neysluverðs. Jafnvel verði vaxtaákvæði samninganna hækkuð í samræmi við þetta þar sem gengistryggð lán hafi gjarna haft mjög lága vexti.

„Ef menn hefðu lagt réttar forsendur til grundvallar í byrjun hefði það orðið niðurstaðan þá, lántaki hefði fengið venjulega vexti og tengingu við vísitölu neysluverðs,“ segir Eyvindur. Hann kveður þó ekki ljóst með hvaða hætti leiðréttingu yrði við komið en telur að löggjafinn geti ekki látið undir höfuð leggjast að láta til sín taka hvað það varðar. Hann slær því þó ekki föstu að löggjafinn hafi svigrúm til að hlutast til um þetta.

Samkvæmt 36. grein laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er heimilt að breyta samningi í hluta eða heild ef telja verður ósanngjarnt eða andstætt góðri viðstkiptavenju að bera hann fyrir sig. Eyvindur segir að algert brottfall verðtryggingar geti varla talist sanngjarnt í garð lánveitanda og því hljóti ákvæði greinarinnar að koma til skoðunar.

Bendir hann í því samhengi á að dómafordæmi séu fyrir að gömlum langtímaleigusamningum upp á örfáar krónur á ári sé breytt á grundvelli brostinna forsendna og 36. greinarinnar. Hefði að hans mati verið æskilegt af hálfu lánveitenda að hafa uppi varakröfu um leiðréttingu skilmálanna í málinu sem dæmt var í dag.

Eyvindur leggur þó áherslu á að aðeins sé um að ræða einn möguleika á því hvernig um málin fari en ekki áreiðanlega véfrétt.

Ekki er ljóst hvernig upphæðir lána sem gengistryggð voru með ólögmætum hætti samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag verða reiknaðar út. Hæstiréttur tók ekki á því í dómi sínum þar sem réttarfarsástæður tóku fyrir það. Fyrir liggur að þúsundir samningar hafa á undanförnum árum verið gerðir um gengistryggð lán og eru því miklar fjárhæðir í spilinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka