Eining ESB í Icesave-deilunni

Við höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Við höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. Reuters

Hollenskir embættismenn innan Evrópusambandsins telja sig hafa fullvissu fyrir því að Icesave-deilan sé ekki lengur milliríkjadeila á milli Íslands annars vegar og Hollands og Bretlands hins vegar heldur deila á milli Íslands og ESB-ríkjanna 27, að því er blaðamaður EU Observer greinir frá.

Morgunblaðið ræddi við Leigh Phillips, blaðamann EU Observer, fyrir stundu undir lok vinnudags í Brussel.

Phillips fjallar um umsókn Íslendinga í grein á vef EU Observer sem er endurbirt á vef Business Week en á síðara staðnum er fyrirsögnin á þá leið að það sé á brattann að sækja fyrir Íslendinga í inngönguferlinu.

Aðspurður um fyrirsögnina tekur Phillips fram að hún sé frá öðrum komin. Hitt sé annað mál að hátt settir embættismenn hafi staðfest í samtölum við hann að José Manuel Barroso, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, hafi nýlega lýst yfir áhyggjum af því hversu klofin íslenska þjóðin væri gagnvart aðildarumsókninni.

Phillips hafi lesið þetta út úr ummælum Barroso - þar sem hann sagði ESB tilbúið að hefja aðildarviðræður við Ísland ef Íslendingar vildu ganga í sambandið - og fengið það staðfest í samtölum við embættismenn sem vilji ekki koma fram undir nafni.

Þessar upplýsingar vekja athygli en í gærkvöldi lýsti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra því yfir í samtali við Morgunblaðið að engin tengsl væru á milli Icesave-málsins og aðildarumsóknar Íslands.

Ekkert ríki beinlínis andvígt aðild Íslands

- En hvaða augum líta menn aðildarumsóknina í Brussel?

„Annars vegar eru nokkur Evrópusambandsríki sem eru mjög hlynnt inngöngunni. Ekkert aðildarríkjanna er beinlínis andvígt aðild. Bretar og Hollendingar vilja hins vegar að lausn fáist á Icesave-deilunni áður en aðildarferlið getur haldið áfram.

Á fundi mínum með hollenskum diplómötum í gær kom fram að þeim hefði tekist að vinna hin Evrópusambandsríkin á sitt band þannig að þau líti ekki lengur á þetta mál sem tvíhliða deilu á milli Íslands og ríkjanna tveggja heldur sem mál sem varði allt Evrópusambandið.

Til að sannreyna þetta bar ég þessa túlkun undir diplómata annarra landa. Írar höfnuðu þessu ekki en lýstu málinu enn sem tvíhliða deilu. 

Ég held að einkum Hollendingar og svo Bretar í minna mæli haldi því nú á lofti að Evrópusambandið sé sameinað í deilunni til að tryggja að Ísland greiði Icesave-skuldina áður en það getur gengið í sambandið.

Ég tel hins vegar að hin aðildarríkin hafi minni áhyggjur af málinu.“

Hin ríkin hafa ekki eins þungar áhyggjur af málinu

- Hversu þungt vegur þessi afstaða Breta og Hollendinga. Skiptir hún lykilmáli eða hafa önnur aðildarríki sitt að segja um afstöðu sambandsins í deilunni?

„Hún hefur áhrif en hin aðildarríkin munu, þrátt fyrir að hafa ekki eins miklar áhyggjur af málinu, standa með hinum aðildarríkjunum, einkum Hollandi.

Hollendingar hafa gefið eindregið til kynna án þess að segja það berum orðum að Ísland fái ekki inngöngu án þess að greiða skuldina.

Bretar hafa ekki tekið eins harða afstöðu. Þeir hafa ekki gengið svo langt að segja að Ísland fái ekki inngöngu án þess að málið leysist en hafa hins vegar gefið upp að það verði mjög erfitt fyrir Ísland að fá aðild án þess að málinu sé lokið,“ segir Phillips sem telur að Írar hafi meiri samúð með Íslendingum í deilunni en Bretar og Hollendingar.

Mistök Evrópusambandsins

Phillips bætir því svo við að hann líti svo á að ESB hafi gert mistök í Icesave-deilunni. Sambandið glími nú við mikla efnahagskreppu og vandræði á evrusvæðinu. Því hefði það gefið góða mynd af sambandinu ef ríki sem stendur jafn vel með tilliti til lýðræðis og samfélagsgerðar og Ísland hefði fengið góða meðferð í aðildarferlinu.

Slík atburðarás hefði gefið til kynna að þróuð ríki sæktu enn í félagsskap ESB-ríkjanna þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í álfunni.

„Ég tel sjálfur að Evrópusambandið, Bretar og Hollendingar hafi skotið sig í fótinn í málinu. Sú harða lína sem hefur verið tekin eru mistök enda hefur hún valdið aðildarferlinu miklum skaða. Aðildarferlið hefði að öllu jöfnu átt að ganga greiðlega, að ágreiningi um sjávarútvegsmál frátöldum,“ segir Phillips

Kveðst hann því líta svo á að sá ágreiningur sem sé uppi á Íslandi gagnvart inngöngunni komi aðildarferlinu ekki til góða, enda sé litið á það öðrum augum en til að mynda umsókn Króatíu um aðild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert