Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, Magnús Gunnarsson frá Skógræktarfélagi Íslands (SÍ) og Jónatan Garðarsson frá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar skrifuðu nýverið undir samning um atvinnuátak fyrir námsmenn tengt skógrækt. Mun þetta skapa störf fyrir sjötíu námsmenn í sumar.
„SÍ og samgönguráðuneytið hafa gert með sér samning um átaksverkefni á vegum SÍ sem miðar að því að skapa 220 ársverk við skógrækt og önnur tengd verkefni á árunum 2009-2011. Í þeim samningi er gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga að verkefninu. Ennfremur er gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samvinnu við skógræktarfélög innan SÍ.
Samningurinn sem undirritaður var 25. júní er hluti þessa atvinnuátaksverkefnis og með honum taka SÍ og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar að sér að skipuleggja verkefni fyrir 70 námsmenn í 2 mánuði á landssvæðum Hafnarfjarðarbæjar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar á árinu 2010, á tímabilinu júní til 30. september 2010.
Anna Sigurborg Ólafsdóttir þjónustu- og þróunarstjóri segir að nú þegar hafi 6o námsmenn óskað eftir vinnu við átakið. Er ljóst að mikil þörf er fyrir vinnu fyrir námsmenn en Vinnumálastofnun fór af stað með sérstakt átak fyrir námsmenn nú í vor og auglýsti 856 störf. Fékk Hafnarfjarðarbær þar af 22 ráðningarheimildir og er búið að ráða í þær stöður," samkvæmt fréttatilkynningu.