Hrefnuveiðar ganga vel

Hrafnreyður KÓ var máluð svört - eins og hrefna. Báturinn …
Hrafnreyður KÓ var máluð svört - eins og hrefna. Báturinn hefur reynst vel við hrefnuveiðarnar. Ljósmynd/Gunnar Bergmann Jónsson

Hrafn­reyður KÓ veiddi hrefnu­tarf í Faxa­flóa í dag. Það er 33. hrefn­an sem bát­ar Hrefnu­veiðimanna ehf. veiða í sum­ar. Veiðin hef­ur gengið mjög vel og bát­arn­ir aldrei farið í fýlu­ferð, að sögn Gunn­ars Berg­mann Jóns­son­ar fram­kvæmda­stjóra.

Tarf­ur­inn í dag veidd­ist utan við lín­una sem af­mark­ar innri mörk veiðisvæðis­ins. Hrefnu­veiðin nú er orðin tölu­vert meiri en hún var á sama tíma í fyrra.

„Veiðin hef­ur gengið mjög vel. Við höf­um ekki þurft að fara neina fýlu­ferð, alltaf náð í dýr. Veður­skil­yrðin hafa verið mjög fín. Faxa­fló­inn er krökk­full­ur af hrefnu,“ sagði Gunn­ar.

Hrefnu­veiðimenn ehf. keyptu bát til veiðanna í vor og nefndu hann Hrafn­reyði KÓ. Gunn­ar sagði að bát­ur­inn hafi komið mjög vel út. Auk Hrafn­reyðar KÓ hafa Dröfn RE og Hall­dór Sig­urðsson ÍS einnig veitt hrefn­ur á veg­um Hrefnu­veiðimanna ehf. 

Hrafn­reyður KÓ er afla­hæsti bát­ur­inn og verður aðallega notaður við veiðarn­ar út sum­arið.

„Það verður veitt al­veg grimmt í júlí og eitt­hvað fram í ág­úst,“ sagði Gunn­ar. Afl­inn fer all­ur á inn­an­lands­markað og hef­ur gengið vel að selja afurðirn­ar. Búið er að frysta tals­vert af kjöti enda geym­ist það bet­ur en af dýr­um sem veidd eru seinni part sum­ars þegar þau eru orðin feit­ari. 

Gunn­ar sagði að hrefnu­kjöt fá­ist nú í lang­flest­um versl­un­um. Einnig fjölg­ar stöðugt veit­inga­stöðum og hót­el­um sem bjóða upp á hrefnu­kjöt. Veit­ingastaðirn­ir sem mat­reiða hrefnu eru orðnir á annað hundrað tals­ins. 

Sala á hrefnu­kjötu, bæði á veit­inga­hús­um og í versl­un­um, hef­ur hald­ist í beinu sam­hengi við ferðamanna­straum­inn. Gunn­ar sagði það benda til þess að ferðamenn kaupi  sér hrefnu­kjöt bæði í versl­un­um og veit­inga­hús­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert