Hálfs árs fangelsi fyrir líkamsárás

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í 6 mánaða  fangelsi fyrir líkamsárás en hann sló annan mann margsinnis í andlitið með þeim afleiðingum, að sá sem varð fyrir árásinni nefbrotnaði og hlaut fleiri áverka.

Þetta gerðist í bíl, sem stóð á bílastæði í Breiðholti í Reykjavík febrúar á síðasta ári. Sá sem varð fyrir árásinni sagði, að hinn maðurinn hefði hringt í sig og beðið sig að koma út í bílinn. Þar sakaði hann fórnarlambið um að hafa verið með kærustu sinni. Sá sem varð fyrir árásinni bar að hinn maðurinn hefði slegið sig 10 hnefahögg og hótað sér.

Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa hitt hinn manninn þennan dag. DNA-rannsóknir á blóðblettum, sem fundust í bíl árásarmannsins, og framburður fórnarlambsins og annarra vitna sögðu þó aðra sögu og héraðsdómur taldi sannað, að maðurinn hefði ráðist á hinn manninn.

Árásarmaðurinn hefur margsinnis áður hlotið dóma fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og vopnalögum. Auk fangelsisdómsins var hann dæmdur til að greiða hinum manninum tæpar 350 þúsund krónur í bætur og 420 þúsund krónur í sakarkostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert