Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona, og fleiri hafa afhent umboðsmanni Alþingis ábendingu um að taka til gagngerrar endurskoðunar svonefnt Magma-mál.
Þeir sem skrifa undir ábendinguna eru auk Bjarkar, Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur og Jón Þórisson, arkítekt og aðstoðarmaður Evu Joly.
Í ábendingunni segir að í ljósi þess hve sölu- og samningaferli í Magma-málinu hefur verið umdeilt og ógagnsætt, sé mikilvægt að umboðsmaður Alþingis taki það til skoðunar til að vita hvort hagsmuna almennings hafi verið gætt á fullnægjandi hátt og hvort málsmeðferð stjórnvalda hafi samræmst lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum.
Í ábendingunni er því haldið fram að hér sé um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir allan almenning í landinu og að þær ákvarðanir sem teknar verði nú um framsal orkuauðlindanna varði ekki bara okkur, heldur börn okkar og komandi kynslóðir.