Segir of snemmt að fara í ESB

Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.
Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur. Þorkell Þorkelsson

„Mín ágisk­un er sú að það verði jafn erfitt að fá Ísland inn og það er þessa dag­ana að fá ís­lensku lax­ana til að taka í uppþornuðu ánum,“ seg­ir Uffe Ell­emann-Jen­sen, fyrr­um ut­an­rík­is­ráðherra Dana þar sem hann læt­ur gamm­inn geysa á bloggi sínu á vef Berl­ingske Tidende um það hvort Ísland gangi í Evr­ópu­sam­bandið.

Er bloggið skrifað í gær í kjöl­far frétta um form­leg­ar aðild­ar­viðræður milli Íslands og ESB. Má af því ráða að hann telji Íslend­inga í þrjósk­ari kant­in­um sem túlki mál­in á sinn sér­ís­lenska máta.

Ell­emann-Jen­sen tal­ar þó um ásteyt­ing­ar­steina sem hægt verði að leysa með góðum vilja. Þar séu fisk­veiðarn­ar stærsta málið en ekki megi held­ur gleyma hval­veiðunum. Þær telji Íslend­ing­ar inn­an­rík­is­mál sem komi öðrum ekki við. Hann tæp­ir einnig á land­búnaðinum sem sé niður­greidd­ur út í gegn af rík­inu en það hljóti að finn­ast lausn þar á.

Sér­ís­lensk túlk­un á Ices­a­ve

Ábyrgð Íslend­inga á Ices­a­ve reikn­ing­un­um sem Hol­lend­ing­ar og Bret­ar borguðu sé óleyst vanda­mál. Gerður hafi verið samn­ing­ur um end­ur­greiðslu sem þjóðin hafi fellt í þjóðarkvæðagreiðslu. Málið sé því enn óleyst og þar komi líka til hin sér­ís­lenska túlk­un. Ell­emann-Jen­sen vís­ar til sam­ræðna sem hann átti við ónefnd­an ís­lensk­an stjórn­mála­mann og hef­ur eft­ir hon­um: „Það gat auðvitað hver maður séð að það var al­gjör­lega óá­byrgt að leggja spari­fé sitt í banka í landi sem hef­ur aðeins 300.000 íbúa...“

Ell­emann Jen­sen seg­ir Íslend­inga ekki kom­ast langt á þess­ari hugs­un og þeir þurfi að kunna að taka á sig skyldu í alþjóðasam­fé­lag­inu. Vanda­málið sé hins veg­ar að flest­ir stjórn­mála­menn hafi fest sig í þeirri hugs­un að landið hafi ekki efni á að borga og því óviðeig­andi af um­heim­in­um að óska eft­ir greiðslu.

Þá tel­ur hann Morg­un­blaðið und­ir stjórn Davíðs Odds­son­ar vera í far­ar­broddi and­stöðu við ESB. Það hafi auk þess verið Davíð sem hafi sagt að aðeins Íslend­ing­ar fengju tap sitt í banka­hrun­inu greitt og þar með vakið reiði Breta. Þetta hafi gengið gegn regl­um EES og   þegar Bret­ar hafi beitt hryðju­verka­lög­gjöf­inni hafi Íslend­ing­ar enn tekið það sem sönn­un þess að um­heim­ur­inn vildi þeim ekki vel.

Tel­ur aðild Íslands að ESB ótíma­bæra

Þegar and­rúms­loftið er svona ein­dregið gegn aðild er erfitt að trúa því að af aðild verði seg­ir Ell­emann Jen­sen og seg­ist ekki sjá til­gang í að fá leyfi til viðræðna þegar ljóst sé að Íslend­ing­ar munu fella málið í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Hann sé hins veg­ar til í að fá bæði Ísland og Nor­eg með í ESB þegar tím­inn sé rétt­ur. Ísland eigi ekki að sækja um aðild bara út á efna­hags­leg­an ávinn­ing. Íslend­ing­ar eigi að vera með þegar þeir trúi á Evr­ópu­verk­efnið og vilji vera hluti af því. Þegar þeir skilji að með því séu þeir ekki að af­sala sér sjálf­stæði og þar gætu Dan­mörk, Svíþjóð og sér­stak­lega Finn­land lagt sitt af mörk­um út frá eig­in reynslu.

Uffe Ell­emann-Jen­sen þekk­ir vel til á Íslandi. Hann hef­ur oft  komið til lands­ins í laxveiði og skrifað bók­arkafla og grein­ar um laxveiði á Íslandi.

Bloggið má finna hér: http://​uf­feell­emann.blogs.berl­ingske.dk/​2010/​07/​27/​is­land-bli­ver-vanskelig-at-fa-pa-krogen/

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert