Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) eru samstiga um það að Íslendingum beri að greiða fyrir Icesave-innlánsreikninga Landsbanka Íslands en ekki um ástæðurnar. Þetta kemur fram í svörum sem borist hafa við fyrirspurnum Morgunblaðsins vegna málsins frá þessum tveimur stofnunum.
Eins og fram hefur komið lítur framkvæmdastjórnin svo á að engin ríkisábyrgð sé á bankainnistæðum samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar sem innleidd var hér á landi fyrir rúmum áratug. Hins vegar heldur framkvæmdastjórnin því fram að tilskipunin hafi ekki verið innleidd með viðunandi hætti þar sem stærð íslenska tryggingasjóðsins hafi ekki verið í hlutfallslegu samræmi við stærð fjármálageirans hér á landi. Slíkt geti leitt til skaðabótaskyldu.
Talsmaður framkvæmdastjórarinnar sagði réttilega í svörum sínum til Morgunblaðsins að það væri hlutverk ESA að fylgjast með innleiðingu slíkra gerða á Íslandi. Í svörum frá Xavier Lewis hjá lögfræðisviði ESA við því hvers vegna engar athugasemdir voru gerðar kemur hins vegar einfaldlega fram að í nálgun sinni við málið horfi stofunin aðeins til þess sem gerðist í kjölfar bankahrunsins en ekki í aðdraganda þess.
ESA segir að sú skylda hafi hvílt á íslenska ríkinu að sjá til þess að tryggingasjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar sem séu að bæta öllum innistæðueigendum tapaðar innistæður upp að þeirri lágmarkstryggingu sem kveðið er á um í tilskipuninni.
Ólík svör þeirra vekja óhjákvæmilega ýmsar spurningar. Meðal annars vekur athygli að ESA kjósi að horfa aðeins á það sem gerðist eftir bankahrunið en ekki fyrir það í ljósi þess að framkvæmdastjórnin telur að ekki hafi verið staðið rétt að innleiðingu tilskipunarinnar um innistæðutryggingar hér á landi fyrir hrun og þess eftirlitshlutverks sem ESA gegnir í því sambandi.
Þá virðast stofnanirnar tvær ekki vera samstiga gagnvart þeirri spurningu hvort ríkisábyrgð sé til staðar á bankainnistæðum.