„Átakamikið og áhrifamikið“

Samveran var í Vídalínskirkju í Garðabæ.
Samveran var í Vídalínskirkju í Garðabæ. Árni Sæberg

„Þetta var bæði óskaplega átakamikið og áhrifamikið,“ sagði séra Gunnar Rúnar Matthíasson, formaður fagráðs um meðferð kynferðisbrota innan Þjóðkirkjunnar. Hann var í hópi nær fimmtíu presta sem hlýddu á frásagnir Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur og fjögurra annarra þolenda kynferðislegs ofbeldis af hálfu fyrrverandi biskups.

Samveran var í Vídalínskirkju í dag. Fagráðið hélt utan um samveruna en stofnaði ekki til hennar, að sögn Gunnars.  Hann kvaðst hafa sent prestum tölvuskeyti um samveruna síðastliðið laugardagkvöld.

„Rétt tæplega fimmtíu prestar komu með 36 stunda fyrirvara. Það sýnir að fólk tekur það alvarlega að heyra og virða þessar sögur,“ sagði Gunnar. Hann sagði að til samverunnar hafi komið margir prestar af höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess, þeir sem ekki voru bundnir í athöfnum eða af öðru. Aðrir komu lengra að.

Gunnar sagði fundinn í dag hafa verið að frumkvæði Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur. Nokkrir prestar hittu hana á laugardaginn var. Þar kviknaði sú hugmynd að bjóða fleiri prestum til samveru með henni. Sigrún Pálína lagði þá til að fleiri þolendum yrði einnig boðið.

„Þetta var samvera til áheyrnar. Við ákváðum fyrirfram að þetta tæki einn og hálfan tíma og við stóðum við það. Samveran var í kirkjuskipinu sjálfu, þær sátu við borð framan við altarið og töluðu við okkur. Við prestarnir sátum í kirkjuskipinu þannig að þær voru prestar okkar í dag,“ sagði Gunnar. 

Vildu heyra reynslu kvennanna 

Fjórar konur sögðu sögu sína og frásögn þeirrar fimmtu, sem var forfölluð vegna veikinda, var lesin upp.

„Markmið okkar var að heyra sárin þeirra,“ sagði Gunnar. „Þetta var ekki fundur ákvarðana eða ályktana, heldur fyrst og fremst til að ganga inn í og heyra reynslu þeirra. Við viljum láta það sitja í hugum okkar og treystum að það beri ávöxt sem við sjáum ekki fyrir.

Það er ekki bara erfitt að heyra inntak sagna þeirra. Það reynir ekki síður á að heyra hve ofboðslega þung reynsla þeirra hefur verið, ekki bara af brotunum heldur af reynslu þeirra af að koma fram í kirkjunni og í samfélaginu. Hvað þær hafa þurft að þola mikið og vera allt að því kennt um þann vanda sem upp er kominn.

Einnig hvað þetta hefur verið þungt fyrir fjölskyldur þeirra og aðstandendur. Maður tekur ofan fyrir því hvað aðstandendur þeirra og vinir hafa verið traustir og dýrmætir,“ sagði Gunnar.

Óvíst er hvort framhald verður á samveru af þessu tagi. Gunnar sagði stundina í dag hafa verið mjög áhrifamikla og kvaðst reikna með að hún verði honum lengi í minni.

Þungu fargi létt af

Ólöf Pitts Jónsdóttir, ein kvennana fjögurra, sagði við Ríkisútvarpið í kvöld, að hún væri fegin og að þungu fargi sé af sér létt en málið hafi verið með henni í bráðum 30 ár.

Ólöf sagðist hafa ætlað með þetta í gröfina en væri ánægð með afsökunarbeiðni prestanna, sem hefði verið einlæg og komið frá hjartanu. Margir hafi verið með tárin í augunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert