„Þetta er ekki algengt,“ segir Vignir Sigurólason, héraðsdýralæknir í Þingeyjasveit, um rostung sem kom á land í mynni Flateyjardals. Hann fór að skoða dýrið í morgun eftir að tilkynning barst um dýrið seint í gærkvöld.
Fyrst sást til rostungsins síðdegis í gær og barst tilkynning um að dýrið væri sært og illa haldið.
„Við fórum á staðinn út af þessari tilkynningu að rostungurinn væri illa á sig kominn, og til að meta ástandið og þá lina þjáningar hans ef þörf væri á. En það taldi ég ekki þörf á því. Þess vegna var hann látinn í friði,“ segir Vignir.
„Við siglum yfir flóann og finnum hann þarna í fjörunni af sjó. Förum svo í land og löbbum alveg að honum,“ segir Vignir í samtali við mbl.is. Aðspurður telur hann líklegt að um fullvaxta dýr sé að ræða. Ekki liggur fyrir hvort þetta sé karl- eða kvendýr.
Þá segist Vignir ekki vita hvaðan rostungurinn komi. Ómögulegt sé að segja til um það. „Ætli hann sé ekki bara að elta góða veðrið,“ segir Vignir og hlær.
Aðspurður segir hann að það stafi ekki mikil hætta af rostungum, þ.e. fái þeir að vera í friði. „Þeir kannski snúast til varnar ef menn eru að ónáða þá í návígi.“
Hvar rostungurinn heldur sig nú er ekki vitað því dýrið stakk sér
til sunds og hvarf í sjóinn í kjölfar heimsóknar dýralæknisins.
Fram kemur á vef Selaseturs Íslands á Hvammstanga að rostungur hafi komið síðast á land í Ófeigsfirði á Ströndum um verslunarmannahelgina árið 2008. Að sögn Vignis drapst dýrið stuttu seinna.
Þar á undan sást síðast til rostungs hér við land við Hrafnabjörg í Arnarfirði árið 2005.