Morðmálið upplýst

Friðrik Smári Björgvinsson, Jón H.B. Snorrason og Björgvin Björgvinsson á …
Friðrik Smári Björgvinsson, Jón H.B. Snorrason og Björgvin Björgvinsson á blaðamannafundinum. mbl.is/Júlíus

Ríkissaksóknari var upplýstur um það í dag morðið á Hannesi Þór Helgasyni sé upplýst. Hefur 23 ára gamall karlmaður, Gunnar Rúnar Sigurþórsson, játað verknaðinn. Er það byggt á gögnum sem hafa komið fram og var maðurinn einn að verki. Maðurinn játaði í gær og í dag en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir rúmri viku.

Morðvopnið er ekki fundið en þess er leitað í Hafnarfjarðarhöfn  og björgunarsveitir og lögregla leita nú fjöru að morðvopninu og öðrum hlutum sem tengjast morðinu. Lögregla staðfesti að leit hafi hafist að morðvopninu í gær í Hafnarfjarðarhöfn líkt og fram kom á mbl.is fyrr í dag.

Gunnar Rúnar verður látinn sæta geðrannsókn en lögregla segir að ekki sé hægt að upplýsa að svo stöddu hver ástæðan fyrir morðinu er en á von að það verði upplýst síðar.

Ljóst þykir að morðið var framið einhvern tíma á tímabilinu 5 um nótt til klukkan 10 um morgun aðfararnótt sunnudagsins 15. ágúst. 

Þær bráðabrigðaniðurstöður lífsýna sem liggja fyrir hafa ekki tengt manninn við morðið þar sem lífsýnin sem voru á staðnum voru öll úr Hannesi. 

Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að það sé ekki einungis frásögn mannsins um að hann hafi myrt Hannes sem leiði til þessarar niðurstöðu heldur bendi önnur gögn tengd rannsókninni til sömu niðurstöðu.

Fyrr í dag var farið yfir málið með ríkissaksóknara sem fer með ákæruvaldið í jafn alvarlegum málum og morðmálum. Honum var tjáð að málið teldist í grófum dráttum upplýst. Fyrir rúmri viku síðan var 23 ára karlmaður handtekinn vegna rökstuddra grunsemda okkar um að hann ætti aðild að þessu manndrápi. Hann var úrskurðaður af okkar kröfu í gæsluvarðhald til 24. september að kröfu embættisins," sagði Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari á fundi með fjölmiðlum nú síðdegis.

Málið telst því í meginatriðum upplýst og byggir sú niðurstaða á rannsóknarniðurstöðum og játningu hins handtekna. „Það er ekkert sem bendir til þess að aðrir tengist þessu máli en sá sem hefur verið handtekinn þessi 23 ára gamli piltur," segir Jón.

Þrátt fyrir að lögregla telji að málið sé upplýst þá eru ýmsir þættir enn í rannsókn og endanleg niðurstaða ekki komin í öllu tæknilegum þáttum málsins. Lögreglan á von á því að ákæra verði lögð fram fljótlega eða á næstu vikum og Gunnar mun sitja í gæsluvarðhaldi þar til það rennur út hið minnsta.

Fyrstu bráðabirgðaniðurstöður eru bara úr örfáum sýnum og þær niðurstöður hafa ekki varpað skýrara ljósi á málið. Ekki er komin niðurstaða úr öllum sýnum sem send voru út. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að fleiri hafi komið að morðinu.

Gunnar var handtekinn fyrr í rannsókninni en sleppt innan sólarhrings. Að sögn lögreglunnar voru á þeim tímapunkti ekki nægar sannanir fyrir hendi til þess að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. Nafn hans var hins vegar fljótlega nefnt til sögunnar við rannsóknina á morðinu á Hannesi. 

Gunnar Rúnar er æskuvinur unnustu Hannesar Þórs og birti  m.a. myndskeið á vefnum YouTube á síðasta ári þar sem hann ávarpaði konuna og játaði henni ást sína. Fram hefur komið, að konan dvaldi á heimili Gunnars Rúnars nóttina sem Hannes Þór var myrtur.

Gunnar Rúnar var síðan handtekinn að nýju 26. ágúst á grundvelli nýrra vísbendinga sem gerðu það að verkum, að rökstuddur grunur var talinn vera fyrir hendi um að hann ætti aðild að andláti Hannesar.

Fram kom í Morgunblaðinu, að blóðleifar fundust á skóm sem lögreglan lagði hald á við húsleit á heimili Gunnars Rúnars. Reynt hafði verið að þrífa blóðið af skónum. Þá pössuðu skórnir við skófar sem fannst á heimili hins látna. 

Lögreglumenn leiða Gunnar Rúnar Sigurþórsson inn í dómhús Héraðsdóms Reykjaness …
Lögreglumenn leiða Gunnar Rúnar Sigurþórsson inn í dómhús Héraðsdóms Reykjaness fyrir viku. mbl.is/Jakob Fannar
Kafarar úr sérsveit ríkislögreglustjóra hafa kafað í Hafnarfjarðarhöfn í leit …
Kafarar úr sérsveit ríkislögreglustjóra hafa kafað í Hafnarfjarðarhöfn í leit að morðvopninu. mbl.is/Júlíus
Hannes Þór Helgason.
Hannes Þór Helgason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka