Fátækt er feimnismál

Úthlutun undirbúin hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.
Úthlutun undirbúin hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Ómar Óskarsson

Fátækt er feimnismál á meðal íslenskra ráðamanna, að mati Þórhalls Heimissonar prests sem fer með fundarstjórn á opnum borgarafundi um fátækt í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld. Það er Bót, aðgerðahópur um bætt samfélag, sem stendur fyrir fundinum en fulltrúar fjölda samtaka hafa verið boðaðir á hann.

Meðal þeirra sem boðaðir hafa verið á fundinn klukkan 20.00 er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Guðbjartur Hannesson þingmaður, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Vilja draga athyglina að fátækt 

„Yfirskriftin er fátækt á Íslandi og lágmarksframfærsla. Markmiðið er að draga athyglina að fátækt á Íslandi, vandamál sem kemur öðru hvoru upp á yfirborðið en hverfur síðan. Það er eins og menn vilji helst ekki tala um það. Markmiðið er einnig að lyfta upp þeirri stöðu sem margir eru í og er mjög erfið. Mjög mörg heimili berjast í bökkum.

Hins vegar er markmiðið að ræða við þá sem geta gert eitthvað í málinu, stjórnvöld og hagsmunasamtök ýmiskonar. Við ætlum til að mynda að spyrja hvað þeim finnst vera lágmarksframfærsla,“ segir Þórhallur sem telur skilgreininguna á fátækt vera á reiki í þjóðfélagsumræðunni.

„Okkur vantar grunn til að reikna út lífvænlegar bætur og lífvænleg laun.“

Þórhallur Heimisson.
Þórhallur Heimisson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert