Íslensk heimili kynjagreind

Færð eru rök fyrir því að kynjagreina þurfi íslensk heimili.
Færð eru rök fyrir því að kynjagreina þurfi íslensk heimili. Rax / Ragnar Axelsson

Ráðgjafar þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis telja tilefni til að hlutverkaskipting á íslenskum heimilum verði rannsökuð ítarlega með tilliti til kynjagreiningar. Fram kemur að konur beri meginábyrgð á rekstri heimilisins og að ryðja þurfi stoðum karlaveldisins úr vegi.

Sérfræðingar nefndarinnar, Þorgerður Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir, fræðikonur við Háskóla Íslands, ræða karlmennskuhugmyndir út frá þeim gögnum sem fyrir liggja um bankahrunið og orsakir þess og er niðurstaðan öðrum þræði sú að hugmyndirnar hafi átt þátt í því að kerfið fór á hliðina örlagahaustið 2008. Því sé brýnt að ráðast í frekari rannsóknir á hlutverkaskiptingu kynjanna.

Hrunið hafi meðal annars verið afleiðing kynbundins vandamáls í íslenskri stjórnsýslu:

„Hugmyndafræði afskiptaleysis, og sú samfélagssýn og mannskilningur
sem henni fylgdu, hefur kynbundin formerki. Menningarbundnar hugmyndir um karlmennsku varpa ljósi á athafnir og hugarfar þeirra sem voru aðalleikarar í atburðarásinni. Í samræmi við hugmyndafræði afskiptaleysis var regluverk í lágmarki [...] Þjóðhverfar karlmennskuhugmyndir um meinta yfirburði íslenskra karla mynduðu hugmyndafræðilega réttlætingu fyrir þá þróun sem hér varð [...] Skýrslan sýnir að áhrifarík leið til að tákngera valdatengsl er að kyngera þau og dæmi eru um að karlar séu jaðarsettir og jafnvel kvengerðir í formlegu hlutverki sínu. Þannig einskorðast kynjavíddin ekki við líffræðilegt kyn heldur getur kyngervi, einnig leikið stórt hlutverk. Í skýrslunni eru tillögur um hvernig markvisst jafnréttisstarf og kynjagreining geta minnkað líkurnar á að atburðirnir haustið 2008 endurtaki sig.“

Ráðandi karlmennska ekki föst stærð

Í greiningu þeirra segir:

„Þegar saman er dregin meginumfjöllun þessa kafla kemur í ljós að hin menningarlega ráðandi karlmennska er ekki föst stærð heldur breytileg. Af því leiðir að sú tegund karlmennsku sem gerir ráð fyrir jafnræði milli kvenna og karla er því hugsanleg.

Ráðandi karlmennska efur hingað til falist í því að leysa úr togstreitu kynjanna með því að treysta stoðir karlveldisins eða endurnýja það við nýjar aðstæður.88 Það mun aðeins breytast þegar ákveðin endurmótun hefur farið fram á tengslum karla og kvenna og tengslum þeirra innan fjölskyldunnar, í atvinnulífi og öðrum stofnunum samfélagsins.

Í því sambandi er mikilvægt að fram fari úttekt á störfum karla og kvenna heima við. Hér á landi hefur ekki farið fram ítarleg rannsókn á þátttöku kvenna og karla í heimilisstörfum og umönnun barna.

Ýmsar nýlegar rannsóknir sem byggja á upplifun þátttakenda á eigin vinnuframlagi þegar kemur að heimilisstörfum og barnauppeldi benda mjög ítrekað til þess að verulega halli á konur í þeim efnum. Konur bera meginábyrgð á umönnum barna og umsjón heimilis og sinna verkum er því tengjast umfram karla. Í lokakafla skýrslunnar er nánar vikið að þessum þætti sem tengist lögbundinni skyldu stjórnvalda að samþætta kynjasjónarmið allri stefnumótun og ákvarðanatöku,“ segir meðal annars í skýrslunni sem hefst á bls. 209.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka