Þrír stoðtækjasmiðir og tveir fulltrúar Félagsins Ísland-Palestína fara til Gaza í næstu viku til smíða gervifætur á íbúa þar og kenna smíði gervifóta með aðferð sem Össur Kristinsson hefur þróað. Ferðin er farin í framhaldi af vel heppnaði ferð til Gaza í maí á síðasta ári.
„Þetta var mikið ævintýri fyrir okkur sem tókum þátt í ferðinni í fyrra og einstakt að upplifa það að sjá fólk sem hefur orðið fyrir því að missa útlimi, ekki síst fætur, að eignast nýtt líf við það að fá gervifætur. Það er sérstaklega sterkt að upplifa þetta á svæði eins og Gaza þar sem fólki eru flestar bjargir bannaðar vegna hernámsins og þess umsátursástands sem þar er,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland-Palestína.
Í fyrra tókst að smíða gervifætur á 24 einstaklinga á þremur dögum, þar af tvo sem misst höfðu báða fætur. Notuð er tækni sem Össur Kristinsson, stoðtækjasmiður og stofnandi fyrirtækisins Össurar, hefur þróað. Hún gerir það kleift að fara með nauðsynleg tæki og efni á staðinn í litlum ferðatöskum og smíða gervifót við nánast hvaða aðstæður sem er, á klukkustund eða svo.
Til stóð að fara aðra ferð miklu fyrr en Sveinn Rúnar segir að langan tíma hafi tekið að fá nauðsynleg leyfi hjá yfirvöldum í Ísrael. Fyrst hafi verið beðið fjóra mánuði eftir leyfum fyrir fólkið að fara inn á Gaza og síðan aðra fjóra mánuði eftir leyfum fyrir efnunum. Nú sé þetta komið í höfn. Sveinn Rúnar fer í fyrramálið og stoðtækjasmiðir á vegum OKProsthetics, fyrirtækis Össurar, fara eftir helgi. Vonast þeir til að komast á miðvikudag til Gazaborgar og hefjast þá strax handa.
Markmiðið með heimsókninni nú er að smíða gervifætur á 17 einstaklinga. Tveir þeirra hafa misst báða fætur.
„Við leggjum að þessu sinni meiri áherslu á að kenna fólki á staðnum að halda áfram að smíða gervifætur með aðferð Össurar,“ segir Sveinn Rúnar.
Sveinn Rúnar er læknir og mun hann í ferðinni einnig kynna sér ástand heilbrigðisþjónustunnar í Palestínu og ræða sérstaklega við geðhjálparsamtök.