Aldursdreifing heilsugæslulækna hér á landi er mjög ólík því sem gerist á meðal íslenskra lækna erlendis. Þannig eru eldri læknar í meirihluta hér öfugt við aldursdreifinguna erlendis þar sem ungir læknar eru í meirihluta, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Samtaka verslunar og þjónustu um málið.
Þannig kemur fram í skýrslunni að mikill meirihluti íslenskra heimilislækna er yfir fimmtugu. Þá eru yfir 90% þeirra yfir fertugu.
Til samanburðar er mikill meirihluti íslenskra lækna sem er í námi eða starfi erlendis 45 ára og yngri.
Aðspurður um þessar tölur segir Stefán E. Matthíasson, annar höfunda skýrslunnar og formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, að af þeim megi ráða að það stefni að óbreyttu í mikinn læknaskort á Íslandi. Ljóst sé að unga lækna skorti til að taka við af þeim eldri.
Í skýrslu samtakanna um aldursdreifinguna segir:
„Samkvæmt félagatali LÍ voru ísl. læknar erlendis um 544 í byrjun árs 2010. Um 145 læknar eru 50 ára og eldri. Það eru ekki miklar líkur á því að þessi hópur geti verið „varaforði“ fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu þar sem þeir hafa búið erlendis lengi og hafa fest rætur þar.
Stærsti hópurinn erlendis er yngri en 40 ára (rúmlega 50% af öllum íslenskum læknum erlendis) og flestir í sérnámi. Hópurinn sem hægt væri „að virkja betur til starfa á Íslandi“ er því ekki nema rúmlega 120. Sá varaforði byggist á þeim viðtökum sem Íland býður í samkeppni við önnur lönd. Kjör, störf ofl.“
Skýrslu SVÞ má nálgast hér í heild sinni.