Reiðin ráði ekki för

Hörður Torfason leikstjóri og söngvaskáld.
Hörður Torfason leikstjóri og söngvaskáld. Ómar Óskarsson

Reiðin má aldrei ráða för þegar mót­mæli eru ann­ars veg­ar seg­ir Hörður Torfa­son söngvaskáld, aðspurður um fyr­ir­huguð mót­mæli og ólg­una í þjóðfé­lag­inu. Of­beldi leysi aldrei neinn vanda. Hörður kveðst íhuga að taka aft­ur að sér stjórn mót­mæla við Aust­ur­völl, jafn­vel þótt það kosti hann vin­sæld­ir.

- Hvernig er þér inn­an­brjósts, nú þegar önn­ur hrina mót­mæla virðist blasa við tæp­um tveim­ur árum frá hruni?

„Í raun og veru hafa verið stöðug mót­mæli all­an tím­ann eft­ir að ég stoppaði. Síðasti fund­ur­inn sem ég stóð fyr­ir fór fram 14. mars 2009. Þetta stóð yfir frá 11. októ­ber helg­ina eft­ir hrun. Þetta voru mót­mæli sem ég stóð fyr­ir.

Síðan hafa verið nán­ast stöðug mót­mæli en það sem hef­ur ein­kennt þau er að þau eru illa skipu­lögð og illa ígrunduð og mjög ómark­viss þannig að þau koma ekki til með að skila nein­um ár­angri. Það mætti flokka margt af þessu sem óeirðir frek­ar en mót­mæli. Þegar reiðin er lát­in stjórna bitn­ar hún bara á þeim sem eru reiðir. Það er ein­falt.“

And­víg­ur of­beldi í allri mynd

- Nú hef­ur Stein­ar Immanú­el Sör­ens­son, einn tals­manna hóps­ins sem hyggst mæta með svefn­poka á Aust­ur­völl um miðnætti í nótt, látið þau orð falla að hann geti ekki lofað því að mót­mæl­in fram und­an verði friðsöm. Hvað finnst þér um svona mál­flutn­ing?

„Ég er per­sónu­lega á móti of­beldi í allri sinni mynd. Vel skipu­lögð mót­mæli bera ár­ang­ur af því að þeim er vel stjórnað og þau eru án of­beld­is. Of­beldi kall­ar bara fram of­beldi. Þá er komið stríð og stríð er langvar­andi ástand sem ekki skil­ar neinu nema sárs­auka eða meiðslum.“

Hrunið enn óupp­gert

- Af hverju erum við ekki búin að ná sátt­um í þjóðfé­lag­inu? Hvers vegna log­ar allt þjóðfé­lagið á tveggja ára af­mæli hruns­ins?

„Það er ekki byrjað að gera upp hrunið. Það er málið. Al­menn­ing­ur er lát­inn sitja und­ir greiðslum og órétt­mæt­um aðgerðum. Á meðan svona er er eng­inn furða að ástandið er eins og það er og það á ábyggi­lega eft­ir að versna. Ég yrði ekki hissa á því.“

- Hvaða áhrif held­urðu að það muni hafa þegar heim­il­in fara á upp­boð?

„Mjög slæm. Ef maður set­ur sig í spor fólks­ins að þá er verið að henda því út af heim­il­um. Ég var að segja við fólk sem ég var að ræða við í gær að það kæmi mér ekk­ert á óvart ef það kæmi í ljós að af­slátt­ur eins auðmanns - það er verið að af­skrifa allskon­ar skuld­ir auðmanna - sam­svaraði öll­um skuld­um al­menn­ings í land­inu.“

Þrjár meg­in­kröf­ur

- Rétt­læt­is­hug­sjón­in var sem rauður þráður í búsáhalda­bylt­ing­unni?

„Ég er ábyrg­ur fyr­ir búsáhalda­bylt­ing­unni. Ég lagði fram þrjár kröf­ur í upp­hafi í októ­ber 2008, að rík­is­stjórn­in færi frá, stjórn seðlabank­ans og fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Þetta var mín krafa. Til þess að und­ir­strika þess­ar kröf­ur og auka skiln­ing fólks á því hvað væri að ger­ast í þjóðfé­lag­inu fékk ég allskon­ar ræðufólk sem kom með allskyns kröf­ur. Kraf­an sem ég kom fram með voru þess­ar þrjár kröf­ur. Punkt­ur. Hvaða kröf­ur aðrir komu með veit ég ekki. Það komu allskon­ar hliðar­kröf­ur í kring­um þetta.“

Tek­ur ára­tugi að breyta þjóðfé­lagi

- Rétt­lætiskraf­an hef­ur þó verið und­ir­liggj­andi, ekki satt?

Jú. Vit­andi það að slíkt tek­ur ára­tug, jafn­vel ára­tugi. Við breyt­um ekki þjóðfé­lagi á einu ári eða tveim. Það er ég al­veg meðvitaður um. Þetta tek­ur allt sinn tíma.“

Setji fram skýr­ar kröf­ur

- Hvað viltu þá segja við fólk sem hef­ur verið virkt í þess­ari bar­áttu, er óánægt með stjórn­ina og er hugs­an­lega að fyll­ast von­leysi með að það skuli skorta val­kosti? Hvað viltu segja við þetta fólk?

„Nú er setj­ast niður og fara yfir hvað það er sem við vilj­um. Hvað er næsta skref? Ef fólk ætl­ar að rjúka fram með hundrað kröf­ur er það von­laust mál. Við náum mark­miðum ef við tök­um einn hlut í einu, smá­hlut í einu, svipað og ég gerði í búsáhalda­bylt­ing­unni. Það voru þrjár kröf­ur. Punkt­ur. Þegar þær náðust stoppaði ég og hvíldi.“

Und­ir þrýst­ingi á hverj­um degi

- Gæt­irðu hugsað þér að taka þér aft­ur stöðu sem stjórn­andi mót­mæla á Aust­ur­velli?

„Já, svo sann­ar­lega. Ég hef mikið hug­leitt það. Það er legið á mér á hverj­um ein­asta degi. Það hef­ur aldrei stoppað. En menn verða að hafa í huga að þetta gerði ég launa­laust. Það er á hverj­um degi sem ég fæ ósk­ir og jafn­vel bein­ar skip­an­ir um að snúa aft­ur. En ég veit hins veg­ar að fólk ger­ir sér ekki grein fyr­ir hversu gríðarlega mik­il vinna og álag þetta var.“

- Hvernig hef­ur gengið að koma líf­inu í hefðbundn­ari far­veg eft­ir að þessu lauk?

„Það hef­ur verið mikið áreiti og ég finn mikið fyr­ir því að fólk snýr baki við manni á marg­an hátt. Fólk verður hrætt. Einka­lífið er fínt en út á við, hvað snert­ir aðsókn að tón­leik­um og svo fram­veg­is, að þá hef­ur það allt fallið um 60%. Það eru hrein­ar lín­ur,“ seg­ir Hörður Torfa­son söngvaskáld.

Hörður hvetur til friðsamra mótmæla.
Hörður hvet­ur til friðsamra mót­mæla. Ómar Óskars­son
Hörður segir aðsókn að tónleikum sínum hafa dregist saman um …
Hörður seg­ir aðsókn að tón­leik­um sín­um hafa dreg­ist sam­an um 60% vegna þátt­töku sinn­ar í búsáhalda­bylt­ing­unni. Ómar Óskars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert