Ríkisstjórnin á krossgötum

Dómkirkjan í Reykjavík
Dómkirkjan í Reykjavík mbl.is/Ómar

„Alþingi eru 63 valinkunnir einstaklingar, búnir góðum hæfileikum og þekkingu. Þeirra kostir eru nú tveir,“ skrifar Birgir Ásgeirsson prestur um mótmælin á Austurvelli á föstudag. Rúða var sem kunnugt er brotin í Dómkirkjunni og rekur Birgir reiðina til „beisks harmagráts“ fjölskyldna í vanda.

Þannig skrifar Birgir á vefinn trú.is, einn helsta umræðuvef Þjóðkirkjunnar. 

„Atburðirnir á Austurvelli í fyrradag eru miklu alvarlegri viðbrögð almennings en áður hafa þekkst í undanfarinni „búsáhaldabyltingu“ og rista dýpra. Sársaukinn, vonbrigðin og hryggðin eru augljós og harmagráturinn beiskari. Hér þarf kraftmikil viðbrögð og að taka til hendinni til að finna þann framgang laga, réttlætis og siðgæðis, sem sættir þjóðina innbyrðis.

Á Alþingi eru 63 valinkunnir einstaklingar, búnir góðum hæfileikum og þekkingu. Þeirra kostir eru nú tveir. Að snúa bökum saman og vinna sem einn maður að sáttargjörð, sem fær sefað harmagrát þjóðarheimilisins og komið á friði í landinu. Ellegar segja sig frá þeirri skyldu, sem þeir hafa verið kallaðir til og gefa landsmönnum svigrúm til að velja nýja sveit alþingismanna í staðinn,“ skrifar Birgir.

Fyrirgefur árásina

Hann reynir að setja sig í spor þess sem braut rúðu í Dómkirkjunni.

„Nú 1. október brotnaði rúða í Dómkirkjunni af mannavöldum undir messugjörð, þar sem alþingismenn, samkvæmt ríkri hefð, bjuggu sig undir komandi þingstörf. Slíkur atburður getur aðeins átt sér stað, af því að einhver finnur mikið til og á mjög bágt.

Í þessum atburði heyrist harmakvein þjáðs manns, sem er svo illa settur að hann megnar ekki að tjá sig á annan hátt en í reiði og vanstilltum aðgerðum. Er það af því að ekki er skilningur á málstað hans, eða er það af því að hann er svona illa gerður? Svarið liggur ekki í augum uppi, en það er ljóst að hér er eitthvað mikið að, og nauðsynlegt að bregðast við.“

Birgir Ásgeirsson prestur.
Birgir Ásgeirsson prestur. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka