Yfirheyrður vegna Facebookfærslu

Steinar Immanuel Sörensson
Steinar Immanuel Sörensson

Steinar Immanuel Sörensson stofnaði nýlega viðburð á Facebook undir heitinu „Upp í rúm til Jóhönnu og Steingríms.“ Í gærkvöldi var hann tekinn til skýrslutöku hjá rannsóknarlögreglumönnum, þar sem honum var gefin réttarstaða grunaðs manns og tjáð að hugsanlega væri um refsivert athæfi að ræða.

„Ég fékk símtal í gærkvöldi, þar sem  rannsóknarlögreglan kynnti sig og sagðist vilja hafa tal af mér. Ég vissi ekki hvað stóð til, en féllst á að hitta þá við verslunarmiðstöð, þar sem ég var ekki staddur heima hjá mér. Í  bílnum voru tveir óeinkennisklæddir menn sem sýndu mér lögregluskilríki.“

Rannsóknarlögreglumennirnir tjáðu Steinari að hann hefði stöðu  grunaðs manns, hann væri grunaður um að hvetja fólk til að fremja húsbrot..„Þeir sýndu mér viðburð sem ég hafði stofnað á Facebook. Viðburðurinn heitir „Upp í rúm til Jóhönnu og Steingríms“ og ég bjó hann til eftir mótmælin á mánudaginn. Þá komu stjórnmálamenn fram í hrönnum og sögðust ekki vita hverju fólk væri að mótmæla. Mér þótti því tilvalið að fólk settist á rúmstokk helstu ráðamanna til að útskýra fyrir þeim að hér væri fólk að missa heimili sín og allt sitt.“

Steinar segist ekki vita til þess að nokkur hafi gert ráðherrunum rúmrusk, enda hafi hann síður átt von á því. „Ég fór að minnsta kosti ekki sjálfur upp í rúm til þeirra. Þetta var eiginlega gert til að gera grín að því að þau hafi ekki áttað sig á því hverju fólk er að mótmæla.“

„Mér var líka sagt að til mín hefði spurst fyrir utan Seðlabankann og Menntamálaráðuneytið að kvöldlagi í síðustu viku,“ segir Steinar. „Það passar ekki, ég á fjögur ung börn og er lítið úti á kvöldin. „Ég var líka spurður að því hvort ég væri að skipuleggja aðgerðir og hvort ég væri tengdur hópum sem væru að skipuleggja róttækar aðgerðir.“

Steinar er meðal þeirra sem skipulagði svefnmótmælin fyrir utan Alþingishúsið 1. október. Hann hefur verið virkur í mótmælum og hyggst halda því áfram. „Ég spurði lögreglumennina hvort þetta væri leið stjórnvalda til að þagga niður í mótmælum. En þeir neituðu því.“

Steinar segist ekki vita til þess hvort það verði nokkrir eftirmálar af þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka