Þjófnuðum á torfæruhjólum, svonefndum krossurum, hefur fjölgað mikið á undanförnum misserum og reynist oft erfitt að endurheimta þau að nýju. Hrafnkell Sigtryggsson, formaður Vélhjólaíþróttaklúbbsins, segir ugg í eigendum torfæruhjóla og eru margir farnir að læsa hjólum sínum með keðjulásum, jafnvel þótt þau séu geymd í bílskúrum og bílum.
„Menn eru stressaðir yfir þessu því þetta er of algengt til að vera tilviljun. Svo virðist sem menn séu markvisst að stela þessum tækjum,“ segir hann.
Ef farið er yfir lista af vefsvæði lögreglunnar yfir eftirlýst, stolin eða horfin ökutæki má sjá að þar eru 228 ökutæki skráð. Að stórum hluta er um torfæruhjól, fjórhjól og vélsleða að ræða og eru slík tæki vel á annað hundrað. Sum tækin hafa verið á listanum í þrjú og jafnvel fjögur ár en einnig eru mörg á þessu og síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er listinn uppfærður reglulega og á honum eiga að vera raunsannar upplýsingar um ökutæki sem hefur verið stolið og hafa ekki fundist.
„Það er alltaf eitthvað um að þau finnist fljótt en svo heyrir maður ekkert af hinum,“ segir Hrafnkell Sigtryggsson. Í fljótu bragði man hann eftir þremur hjólum sem stolið var á síðustu vikum, þar af tveimur í síðustu viku.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru dæmi um að eigendur torfæruhjóla hafi fundið hjólin sín sjálfir en lögregla ekki getað brugðist við þar sem verksmiðjunúmerið hafði verið slípað af. Í einhverjum tilvikum hafa eigendur leitað annarra úrræða til að fá hjól sín aftur, m.a. sótt þau í skjóli handrukkara.
Hrafnkell segir ekki mikinn markað fyrir torfæruhjól sem stendur en hins vegar virðist sem fjöldi hjóla hafni í skúr uppi við sumarhús vítt og breitt um landið og eigendurnir sjái þau ekki framar. Í ljósi þess að fá hjól finnast leiða menn líkum að því að mörg hafi verið flutt til útlanda.