Stjórnarskrá fyrir fólkið

Þjóðfundurinn þótti vel heppnaður.
Þjóðfundurinn þótti vel heppnaður. Morgunblaðið/Eggert

Niður­stöður af Þjóðfundi um stjórn­ar­skrá Íslands, sem hald­inn var í Laug­ar­dals­höll í gær, liggja nú fyr­ir og verða þær lagðar fyr­ir stjórn­lagaþing, sem kem­ur sam­an í fe­brú­ar 2011, til viðmiðunar. Niður­stöður eru m.a. þær að aðskilja skuli ríki og trú­fé­lög, vægi at­kvæða skuli vera jafnt í einu kjör­dæmi, þing­mönn­um verði fækkað og vald for­seta end­ur­skoðað.

Kveðið er á um að stjórn­ar­skrá­in sé sátt­máli sem tryggi full­veldi og sjálf­stæði Íslend­inga og sé skrifuð fyr­ir fólkið í land­inu. Hún eigi að standa vörð um ís­lenska tungu, menn­ingu og auðlind­ir þjóðar­inn­ar en jafn­framt stuðla að fjöl­menn­ingu og aðskilnaði rík­is og trú­fé­laga.

Niður­stöðunum er skipt í 8 efn­is­flokka, en þeir eru „Land og þjóð", siðgæði, mann­rétt­indi, „rétt­læti, vel­ferð og jöfnuður", „nátt­úra Íslands, vernd og nýt­ing", lýðræði, „vald­dreif­ing, ábyrgð og gagn­sæi"  og „friður og alþjóðasam­vinna".

Skýrt er tekið fram að vægi at­kvæða í kosn­ing­um á Íslandi skuli vera jafnt í einu kjör­dæmi. Þing­seta verði háð tíma­tak­mörk­un­um, þing­mönn­um fækkað og ráðherr­ar skuli ekki gegna þing­mennsku ásamt ráðherra­embætti. End­ur­skoða skuli skip­an dóm­ara og einnig vald for­seta Íslands og taka af­stöðu til neit­un­ar­valds hans. Jafn­framt sé ljóst að lýðræðið byggi á þrískipt­ingu valds og skýr­um lög­um um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um mik­il­væg mál­efni.

Hvað varðar nátt­úru Íslands eru niður­stöður Þjóðfund­ar þær að auðlind­ir lands­ins séu ófram­selj­an­leg þjóðar­eign sem beri að vernda, um­gang­ast og nýta á sjálf­bær­an hátt og vernda fyr­ir kom­andi kyn­slóðir. Setja þurfi skýr lög um eigna-og nýt­inga­rétt þjóðar­inn­ar á auðlind­um, nátt­úru og líf­ríki. Þá seg­ir í niður­stöðunum að Ísland sé mál­svari friðar, sé herlaust land og kjarn­orku­vopna­laust.

Fund­inn sóttu 950 manns af land­inu öllu, frá 18 ára til 91 árs að aldri og var kynja­skipt­ing nán­ast jöfn. Auk þeirra komu um 200 aðstoðar­menn af ýmsu tagi að fund­in­um. Niður­stöðurn­ar má nálg­ast á heimasíðu Þjóðfund­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert