Vilja banna leysibenda

Aðflug í Eyjafirði. Geisla úr leysibendi var beint að flugvél …
Aðflug í Eyjafirði. Geisla úr leysibendi var beint að flugvél þar í vikunni.

Geislavarnastofnanir Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar telja, að takmarka ætti innflutning á öflugum leysibendum á Evrópska efnahagssvæðið og banna almenna notkun þeirra. 

Geisla úr slíkum bendi var beint að flugvél í aðflugi á Akureyri í byrjun vikunnar.  Lögreglan á Akureyri upplýsti málið og tók í sínar vörslur tvo svonefnda laserpenna, sem ungir drengir voru með.

 Á heimasíðu Geislavarna ríkisins segir, að almenningur eigi orðið auðvelt með að eignast öfluga leysibenda sem stundum séu af misnotkun þeirra aukist. Þeir séu notaðir til að áreita almenning, lögreglu og flugmenn. Sá sem verði fyrir geisla slíkra leysa geti hlotið varanlegan augnskaða, jafnvel orðið blindur. Þá geti alvarleg slys orðið ef stjórnendur farartækja blindast.

Leysibendarnir öflugu eru einkum framleiddir í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Mörg Evrópulönd hafa nú þegar innleitt löggjöf um leysa. Að sögn Geislavarna er slík löggjöf þó ófullnægjandi þar sem aðildarríki efnahagssvæðisins geti ekki stöðvað viðskipti yfir landamæri frá öðru aðildarríki.

Af þessari ástæðu hafa geislavarnastofnanir Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Íslands lagt til við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að innflutningur öflugra leysibenda verði takmarkaður og að almenn notkun þeirra verði bönnuð.

Á Íslandi er notkun öflugra leysa sem ljósabúnaðar á stöðum sem almenningur hefur aðgang að háður leyfi Geislavarna ríkisins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka