Réttur blindra sniðgenginn

Blindir sætta sig ekki við boðaða framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings.
Blindir sætta sig ekki við boðaða framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings. mbl.is

Framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings sniðgengur grundvallarrétt blindra til að kjósa í leynilegri kosningu, að mati lögmanns Blindrafélagsins. Þetta kemur fram í bréfi hans til Ögmundar Jónassonar dóms- og mannréttindaráðherra.

Stjórn Blindrafélagsins fól lögmanni sínum í dag að skrifa ráðherranum og koma á framfæri athugasemdum við framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings. Á síðu félagsins er vísað í lög um kosningar til Alþingis. Þar kemur fram að kjósandi megi vera einn í kjörklefa og einnig að það sé markmið laganna að blindir geti kosið í einrúmi.

Bréfið er birt á vef Blindrafélagsins og er svohljóðandi:

„Dóms- og mannréttindaráðuneytið
B.t. Ögmundur Jónasson,
dóms- og mannréttindaráðherra
Skuggasundi
150 Reykjavík

Efni: Kosningar blindra og sjónskerta


Til undirritaðs hefur leitað Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, kt. 470169-2149, Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík og falið að gæta hagsmuna félagsins vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar á kosningum til stjórnlagaþings.

Fyrir liggur að framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings muni vera með þeim hætti að blindir munu eiga rétt á að njóta aðstoðar aðila að eigin vali. Það fyrirkomulag telur umbjóðandi minn vera eðlilegt í ljósi aðstæðna. Hins vegar liggur einnig fyrir að blindir einstaklingar munu ekki geta kosið með aðstoð þess aðila nema að viðstöddum kjörstjóra eða fulltrúa hans. Þetta telur umbjóðandi minn að sé skýrt brot á mannréttindum blindra.

Það er grundvallarregla í öllum lýðræðisríkjum að kjósendur geti kosið fulltrúa sína með leynilegri kosningu. Þessi regla kemur m.a. skýrt fram í 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um að kosningar skuli vera leynilegar. Sú regla endurspeglast svo í 1. mgr. 81. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 þar sem fram kemur að kjósandinn megi einn vera í kjörklefa. Þá kemur fram í 2. mgr. sömu greinar það sé markmið laganna að blindir skuli geta kosið í einrúmi. Þessu til viðbótar kemur skýrt fram í 29 gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að aðildarríkin skuldbindi sig til að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Fyrirhuguð framkvæmd felur það í sér að blindir muni ekki geta kosið nema undir eftirliti opinbers aðila. Það er því ljóst að fyrirkomulagið sniðgengur grundvallarrétt blindra til að kjósa í leynilegri kosningu. Þegar nauðsynlegt er að blindir njóti aðstoðar við þátttöku sína í kosningum telur umbjóðandi minn það vera rétt þeirra að velja sér aðila til aðstoðar. Rétturinn til að kjósa í einrúmi tilheyrir einstaklingnum sjálfum og á hann að geta ráðstafað honum eftir eigin vilja þegar nauðsyn krefur. Ef blindur einstaklingur tilnefnir eigin aðstoðarmann á það því að vera réttur hans að kjósa með aðstoð tilnefnds aðstoðarmanns án frekari aðkomu annarra aðila. Hafi blindur einstaklingur hins vegar ekki slíkan aðila sér til aðstoðar er rétt að sá úr kjörstjórninni, er kjósandi nefnir til, veiti honum aðstoð í kjörklefanum sbr. 1. mgr. 88. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24 frá 2000.  Að framkvæmd atkvæðagreiðslu blindra sé með öðrum hætti háð eftirliti af hálfu þriðja aðila er hins vegar fortakslaust brot á framangreindum rétti.

Umbjóðandi minn vill ítreka að hann hefur skilning á því að umræddar kosningar til stjórnlagaþings eru mjög sérstakar. Þar er tekist á við mörg ný vandamál er lúta að framkvæmd einstaklingskosninga. Þau úrlausnarefni  eru augljóslega töluvert flóknari en þegar hefðbundnar kosningar flokka eru annars vegar.

Það verður hins vegar að liggja skýrt fyrir að umrætt fyrirkomulag er málamiðlun og alger undantekning frá lögmætri tilhögun mála þar sem blindir eiga lögvarinn rétt á að kjósa í einrúmi. Framkvæmdin er því ekki fordæmisgefandi, hvorki fyrir persónukosningar né aðrar kosningar í framtíðinni. Í því ljósi má benda á að leysa hefði mátt framkvæmdina að því er varðar blinda m.a. með notkun stimpla. Því er hins vegar áfram harðlega mótmælt að í kjörklefa sé haft eftirlit með blindum einstaklingum og þeim aðstoðarmönnum sem þeir velja sér.

Ekki verður framhjá því litið að réttur blindra einstaklinga til að kjósa í einrúmi er skýr og hefur verið bundinn í íslensk lög allt frá 1959. Umbjóðandi minn krefst þess að framvegis verði réttur blindra tryggður hvernig svo sem fyrirkomulag kosninga kann að vera.

Virðingarfyllst

Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.
Málflutningsstofa Reykjavíkur¦Reykjavik Legal-“


 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka