Bankar og sparisjóðir hafa samtals afskrifað um 22 milljarða króna hjá einstaklingum og fjölskyldum í tengslum við þau úrræði sem skuldugum heimilum standa til boða. Segja Samtök fjármálafyrirtækja að þetta sýni að mikill vilji hafi verið hjá bönkum og sparisjóðum að aðstoða viðskiptavini í greiðsluerfiðleikum.
Að sögn samtakanna hafa fjármálafyrirtæki kynnt um 20 mismunandi úrræði sem ætlað sé að hjálpa almenningi að takast á við greiðsluerfiðleika í kjölfar fjármálahrunsins.
Segja samtökin, að yfir 5 þúsund einstaklingar hafi nýtt sér úrræði banka og sparisjóða sem snúa að lækkun höfuðstóls á fasteignaveðlánum. Þessu til viðbótar séu 44 þúsund fasteignaveðlán, eða um 51% allra slíkra lána einstaklinga á Íslandi í greiðslujöfnun, sem var opinbert úrræði og stóð öllum til boða.
Yfir 1700 einstaklingar hafa nýtt sér það úrræði sem felur í sér að erlendu láni er breytt yfir í verðtryggt eða óverðtryggt lán í krónum og með því móti er höfuðstóll lánsins lækkaður um 25% að meðaltali. Samtals hafa 9,7 milljarðar króna verið afskrifaðir af fasteignaveðlánum einstaklinga með þessum hætti.
Yfir 1300 einstaklingar hafa nýtt sér höfuðstólsleiðréttingu á íslenskum fasteignaveðlánum og nemur heildarafskriftin 2,2 milljörðum króna.
Ríflega 1600 einstaklingar hafa nýtt sér hina svokölluðu 110% leið sem hefur leitt til afskrifta upp á um 8 milljarða króna.
Alls hafa 140 einstaklingar farið í gegnum sértæka skuldaaðlögun og nema afskriftir hjá þeim rúmum milljarði króna.
Hátt í 300 mál hafa verið afgreidd í greiðsluaðlögun og er áætluð afskrift lána a.m.k. 1,1 milljarður króna.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um endurútreikning erlendra fasteignaveðlána og breytingu þeirra í íslensk lán til samræmis við dóma Hæstaréttar. Segja Samtök fjármálafyrirtækja ljóst, að verði það frumvarp að lögum muni það leiða til enn frekari afskrifta á höfuðstól fasteignaveðlána.