Markvissar leiðir

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, segir mikilvægt, að stjórnvöld og fjármálamarkaður hafi sameinast um að finna markvissar leiðir til að forða eins mörgum og kostur væri frá því að missa heimili sín. 

Ögmundur sagði, að mismunandi sjónarmið hefðu verið uppi um hvað væri heppilegt að gera til að bregðast við skuldavandanum. Annars vegar hefði verið talað fyrir almennum aðgerðum og hins vegar fyrir sértækum ráðstöfunum. Með þessu væri farið bil beggja.

„Ég lít svo á, að vaxtaniðurfærslan sé almenn aðgerð, sem byggir á  því, að fjármunir verði færðir frá fjármagnskerfinu til lántakenda en ég tel að það hafi verið oftekið frá þeim frá hruninu," sagði Ögmundur.

„Á hinn bóginn eru sértækar aðgerðir sem taka sérstaklega á vanda þeirra sem eru yfirveðsettir, m.a. vegna þess að fall hefur orðið á fasteignamarkaði. Þetta er því blanda aðgerða sem menn hafa sameinast um.

Svo er spurt: er þetta lokapunkturinn? Í lífinu eru engir lokapunkar. Við erum að vinna að því að ná niður fjármagnskostnaði. Ég held að það sé  mjög mikilvægt, að þeir sem eru í viðskiptum við banka og lánakerfið  líti  svo á að búið sé að setja strik undir þessa vinnu og menn eiga að greiða úr sínum málum á grundvelli þeirra reglna sem nú liggja fyrir."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka