Um helmingur gæti þurft að borga meira

Á næstu vikum verða sorptunnur í Reykjavík tæmdar á 10 …
Á næstu vikum verða sorptunnur í Reykjavík tæmdar á 10 daga fresti í stað vikulega. Friðrik Tryggvason

Talið er að um helmingur af sorptunnum í Reykjavík sé í meira en 15 metra fjarlægð frá þeim stað sem sorpbíll nær í þær. Íbúar þessar húsa munu á næstu vikum og mánuðum fá bréf þar sem þeim er bent á að þeir verði að greiða gjald, færa tunnugeymslurnar eða koma þeim sjálfir út að götu.

Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg, segir að ekki sé búið að mæla vegalengd frá sorptunnu að sorpbíl, en það sé tilfinning starfsmanna að um helmingur sorpíláta sé staðsettur í meiri fjarlægð en 15 metrum frá sorpbíl.

Frá og með 1. apríl 2011 verða sorpílát eingöngu sótt 15 metra frá sorpbíl.  Standi sorpílát lengra en 15 metra frá sorpbíl þar sem hann kemst næst, geta íbúar óskað eftir að ílát sé sótt til losunar gegn gjaldi, kr. 4.800 á ári pr. ílát fyrir 10 daga hirðu en kr. 2.400 pr. ílát fyrir hirðu á 20 daga fresti (græn tunna).   Þar sem ílát standa lengra en 15 metra frá sorpbíl við losun en íbúar vilja draga úr kostnaði við hirðu geta þeir trillað ílátum framar á losunardegi eða fært sorpgerðin varanlega.

Guðmundur sagði að þar sem fjarlægð tunnur er yfir þessum mörkum yrði sent bréf inn um bréfalúgu um að íbúar verði að kalla eftir viðbótarþjónustu. Guðmundur sagði að þessi bréf færu að berast til fólks í byrjun febrúar. 17. janúar yrði byrjað að hirða sorp á 10 daga fresti í stað vikulega og það tæki nokkrar vikur að festa það fyrirkomulag í sessi.

Í dag er borginni skipt upp í 10 hverfi og er einn sorpbíll í hverju hverfi. Nú verður borginni hins vegar skipt upp í sjö hverfi og verða allir bílar settir í að tæma sorp í því hverfi á einum degi.

Sorpmagn hefur dregist saman um 20% á síðustu 2-3 árum og segir Guðmundur að með breyttu fyrirkomulagi sé vonast eftir að ná fram hagræðingu sem m.a. felst í því að láta starfsmenn ekki tæma tunnur sem eru kannski aðeins hálfar. Hann sagði að sumstaðar kallaði breytt fyrirkomulag hins vegar á fleiri sorptunnur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka