Fimm umferðarslys og fjórar líkamsárásir

Bíladagar voru haldnir á Akureyri um helgina.
Bíladagar voru haldnir á Akureyri um helgina. mbl.is/Sigurður Bogi

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, segir lögreglu hafa verið sæmilega sátta við hvernig hátíðin Bíladagar fór fram í ár en ekki sé þó hægt að halda fram að helgin hafi gengið stórslysalaust fyrir sig. 

Frá hádegi á fimmtudag og fram til klukkan átta í morgun urðu fimm umferðarslys í umdæminu, þar á meðal alvarlegt rútuslys, fimm bíla árekstur og bílvelta, en alls voru 283 verkefni skráð í málakerfi lögreglunnar.

Tveir gripnir á yfir 100 km hraða innanbæjar

Í heildina rötuðu 76 umferðarlagabrot á þessu tímabili á borð lögreglu en þar af voru 55 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur.

Tveir þeirra voru gripnir á yfir 100 km hraða innanbæjar og var annar sviptur ökuréttindum á staðnum. Þá var einn gripinn á um 140 km hraða utanbæjar.

„Það eru háar sektir sem liggja við þessu,“ segir Jóhannes.

Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir að hafa slasast á rafskútum. Fengu báðir þungt höfuðhögg og rotaðist annar.

Þá hafði lögregla afskipti af ökumönnum fyrir glæfralegt aksturslag í bænum, meðal annars fyrir að hringspóla.

Fjórar líkamsárásir

Þá voru tíu hegningarlagabrot framin yfir helgina.

Fjórar líkamsárásir rötuðu á borð lögreglu og þrjú fíkniefnalagabrot.

Að sögn Jóhannesar flokkast líkamsárásirnar ekki sem meiriháttar og voru fíkniefnalagabrotin sömuleiðis minniháttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert