Þingi frestað: Guðni ávarpaði þingheim

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði þingið við frestun þingfunda.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði þingið við frestun þingfunda. Skjáskot af vef Alþingis

Þingfundum 154. löggjafarþings var frestað skömmu eftir miðnætti. 

Þingið var að störfum frá 12. september til 16. desember 2023 og frá 22. janúar til 23. júní 2024.

Þingfundir voru samtals 131 og stóðu í rúmar 649 klst. Meðallengd þingfunda var 4 klst. og 55 mín. Lengsti þingfundurinn stóð í 15 klst. og 43 mín.

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra frestaði forseti fundum Alþingis til 10. september.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp við frestun þingfunda á Alþingi.

Hefð er fyrir því að forseti Íslands flytji ávarp við síðustu þingfrestun í embættistíð sinni eða þinglausnir áður fyrr, að því er segir í tilkynningu frá embætti forsetans.

Í ræðu sinni þakkaði Guðni þingmönnum fyrir samstarfið í átta ár og þá virðingu sem þingheimur ber fyrir embætti forseta Íslands.

Halda þurfi áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar

Guðni árréttaði þá skoðun sína að halda þurfi endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins áfram, ekki síst með hliðsjón af þeim kafla hennar sem lýtur að völdum og verksviði þjóðhöfðingjans. Þar megi til dæmis finna ákvæði um meint vald forseta til að veita undanþágur auk kostnaðarsamra og úreltra ákvæða um verksvið handhafa forsetavalds. Þá beindi forseti því til þingheims að æskilegt væri að setja lög um embætti forseta Íslands, ekki síst til að tryggja stjórnsýslulegt sjálfstæði þess.

Við hæfi að forsetinn haldi ræðu 17. júní í staðinn fyrir forsætisráðherra

Í ræðu sinni lagði Guðni einnig til nokkrar breytingar sem taka mætti til skoðunar á afmælisári lýðveldisins. Nefndi hann að í ljósi einstakrar stöðu í stjórnskipun og samfélagi væri við hæfi að forseti Íslands flytti ávarp til þjóðarinnar á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn 17. júní, í stað forsætisráðherra eins og venja hefur verið.

Þá benti Guðni á að vel færi á því að þjóðhöfðinginn ætti tryggan og formlegan sess í Þingvallabænum sem nýverið var gerður upp en þurfi ekki að vera gestur á tignum stað, til dæmis þegar aðra þjóðhöfðingja ber að garði.

Í lok ræðu sinnar óskaði Guðni nýkjörnum forseta, Höllu Tómasdóttur, velfarnaðar á vandasömum vettvangi. Þá færði hann þingmönnum góðar óskir og landsmönnum öllum kveðjur og þakkir fyrir samfylgdina.

Ræðu forseta má lesa í heild sinni á vefsíðu embættisins forseti.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert