Bar meiri tilfinningar til hundsins en mannsins

Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni.
Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fangi sem var vistaður á sama gangi og Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir á Hólmsheiði sagði að hún hefði ekki sýnt neinar tilfinningar gagnvart andláti manns sem Dagbjört er grunuð um að hafa orðið að bana. Fanginn sagði að Dagbjört teldi sig ekki hafa valdið andláti hans, heldur hefði einhver drepið hann í sjúkrabílnum eða á sjúkrahúsinu.

Fanginn var síðastur til að bera vitni á fyrsta degi aðalmeðferðar í Bátavogsmálinu.

Þær voru vistaðar á sama gangi á Hólmsheiði í tvær til þrjár vikur, en Dagbjört hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í september.

Fanginn sagðist ekki hafa þekkti Dagbjörtu áður en þær voru vistaðar á ganginum. Þær ræddu stundum saman ásamt einum öðrum fanga þegar þær fóru út að reykja.

Fanginn sagði að ástand Dagbjartar hefði verið mjög mismunandi eftir dögum. Hún hefði stundum verið voða hissa yfir því að maðurinn væri dáinn og hélt því fram að einhver hefði drepið hann í sjúkrabílnum eða á spítalanum.

Meðvituð um að hafa gert eitthvað af sér

Fanginn minntist sérstaklega á að Dagbjört hefði verið í miklu áfalli yfir dauða hundsins síns sem hefur mikið verið til umræðu í málinu. Fyrir dómi vildi Dagbjört meina að hundurinn hefði dáið úr elli. Fanginn sagði að Dagbjört hefði grátið þegar hún talaði um hundinn, annað gilti hins vegar þegar hún talaði um manninn.

Dagbjört á að hafa sagt fanganum að hún hefði brotið sköflung mannsins og einhverja fingur útaf því að hundurinn væri dáinn. Dagbjört lýsti því fyrir fanganum að hún hefði brotið bein mannsins með höndunum. Í ákæru segir að langatöng mannsins hefði verið mölbrotin.

Fanginn sagði að hún hefði ekki sýnt neinar tilfinningar varðandi manninn, ekki heldur þegar hún talaði um að brjóta fingur hans.

Fanginn sagði að Dagbjört virtist meðvituð um að hún hefði gert eitthvað sem hún átti ekki að gera, en ekki ollið dauða mannsins. Þá sagði fanginn nokkrum sinnum að suma daga vildi Dagbjört ekki trúa því að hann væri dáinn.

Fanginn sagði að lögregla hefði boðað hana í skýrslu vegna samtalanna þar sem að samfangi þeirra hefði sagt fangaverði frá samtölunum.

Fanginn sagði að hún hefði ekki ætlað að gefa skýrslu fyrir dómi, en lögfræðingur hennar sagt að hún hefði ekkert val.

Á morgun munu meðal annars réttarlæknar flytja skýrslu fyrir dómi. Á föstudag lýkur síðan aðalmeðferð í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert