Eldsvoði á Höfðatorgi: „Þetta eru miklar skemmdir“

Eldur kom upp á Höfðatorgi í dag.
Eldur kom upp á Höfðatorgi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eld­ur kom upp á Höfðatorgi að Katrín­ar­túni 2 í Reykja­vík fyrr í dag en búið er að ráða niðurlögum eldsins. Vatnstjónið er mögulega meira en tjónið sem hlaust af sjálfum eldinum.

Þetta segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. í samtali við mbl.is.

„Slökkvistarfi er lokið og slökkviliðar eru núna bara í frágangi með sín tæki og tól,“ segir Unnar. 

Eldurinn kom upp á veitingastaðnum

Hann segir að störf lögreglu hefjist þegar slökkvilið afhendi vettvanginn.

„Það er að meta skemmdirnar, eldsupptökin, hvar þau eru og með hvaða hætti þau voru.“

Eru þið með hugmynd um það hver eldsupptökin voru?

„Nei við erum ekki með nákvæma hugmynd um það því við erum ekki komnir að þeim stað sem eldurinn kviknaði á. Við erum aðeins búnir að fá sjónmat á það hvar eldurinn - veitingastaðnum sjálfum - sem eldurinn var inni á,“ segir Unnar. 

Veitingastaðurinn Intro er þar meðal annars. 

Öflugt vatnsúðakerfi

Hann segir að eldurinn hafi ekki breiðst meira út frá veitingastaðnum þökk sé öflugu vatnsúðunarkerfi.

„Tjónið út af vatni er kannski meira heldur en af völdum eldsins sjálfs.“

Meginþorrinn af byggingunni var rýmd en fljótlega fengu sumir starfsmenn að fara aftur í örugg rými þegar búið var að ná tökum á eldinum. Ekki má fara í öll rými byggingarinnar og er bílastæðakjallarinn þá enn þá lokaður. Þó hefur verið hleypt fólki inn í kjallarann til að ná bílana sína.

Betur fór en horfði

Betur fór en horfði, sem þakka má öflugu eldvarnakerfi.

„Þetta hús er nýlegt og með skínandi eldvörnum, það er það sem hjálpar til í eldsvoða í svona stóru húsi.“

Úðakerfið fór bara í gang þar sem eldsvoðinn var en það var mikið magn af vatni. Aðspurður segir hann að miklar skemmdir hafi hlotist af.

„Já, þetta eru miklar skemmdir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert