Fá einn dag í viku til að sinna samfélagslöggæslu

Guðrún Hafsteinsdóttir kynnti aðgerðaráætlun sem felur í sér aukna samfélagslöggæslu …
Guðrún Hafsteinsdóttir kynnti aðgerðaráætlun sem felur í sér aukna samfélagslöggæslu vegna aukningar á ofbeldishneigð barna. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

„Ef við fáum meiri tíma og mannskap í þetta starf tel ég þetta vera mjög jákvætt,“ segir Unnar Þór Bjarnason, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður hvað honum finnist um það að auka eigi samfélagslöggæslu í kjölfar aukinnar ofbeldishegðunar barna.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra héldu blaðamannafund í gær þar sem þau kynntu fjórtán aðgerðir sem snúa að for­vörn­um, inn­gripi og meðferð til að sporna og bregðast við aukinni ofbeldishegðun barna.

Ein þeirra gengur út á að auka samfélagslöggæslu. Hún felur í sér löggæslu í nærsamfélaginu sem gengur út á að byggja upp traust og samtal við börn svo þau eigi bakhjarl sem þau geti leitað til.

Unnar segir í samtali við mbl.is mikið ákall hafa verið um að lögreglumenn sinni forvarnarstarfi oftar og á fleiri stöðum. Hann bætir við að lögreglan nái þó ekki að sinna nema um broti af því sem óskað er eftir.

Einn dagur í viku til að sinna samfélagslöggæslu

Unnar lýsir yfir mikilli gleði yfir þessum lið aðgerðaráætlunarinnar en veit ekki hvað þetta muni þýða fyrir hópinn sem sinnir þessu nú þegar. Þá veit hann ekki hvort þeir fái fleiri daga til að sinna þessum lið eða hvort fjármagnið í þennan málaflokk muni nýtast í fleiri fundi eða annað.

Hann og fleiri samfélagslöggur fá bara einn dag í viku til að sinna störfum af þessum toga, en þá fara þeir til að mynda í skóla og halda forvarnarfræðslu fyrir börn.

Aukin samfélagslöggæsla muni bera árangur

„Það eru allir í grunninn samfélagslöggur, snýst bara um að hafa tímann til að geta farið í þessar heimsóknir og verið með þessa fræðslu,“ segir Unnar.

Þannig segir hann þetta hafa byrjað upphaflega, alla lögreglumenn langi til að geta verið með forvarnarfræðslu en það sé lítill tími sem gefst til að sinna því.

Spurður hvort hann telji að aukin samfélagslöggæsla muni bera með sér samfélagslegan árangur svarar Unnar játandi og bætir við að hann sé 100 prósent á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert