Flettifrakkadóni dæmdur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt mann fyrir að bera sig fyrir framan tvær konur. Hljóðar dómurinn upp á fjóra mánuði auk þess sem hann þarf að greiða hvorri konunni fyrir sig 400.000 krónur í miskabætur.

Í fyrsta lið ákærunnar var manninum gefið að sök að hafa gengið að glugga í mars 2023, berað kynfæri sín og handleikið þau fyrir framan konu sem stóð þar fyrir utan að aflæsa reiðhjól sitt.

Í öðrum ákærulið var honum gefið að sök að hafa spurt konu hvað klukkan væri þegar hún gekk út úr verslun í október á síðasta ári og hafa í beinu framhaldi berað kynfæri sín.

Báðar konurnar hringdu í lögregluna skömmu eftir atvikin. Í fyrra skiptið var maðurinn handtekinn á vettvangi en í það seinna var hann farinn þegar lögreglan mætti á svæðið.

Lýsti konan honum þá fyrir lögreglu og sýndi þeim myndband sem hún tók af honum þegar hann gekk á brott.

Glæpirnir á myndbandsupptöku

Myndbandsupptökur af báðum vettvöngum voru notaðar við rannsókn málsins.

Á myndbandsupptöku úr öryggismyndavélum í fyrra atvikinu sést maðurinn standa upp frá borði og fara að glugga rétt hjá en hann gengur svo frá glugganum, hagræðir buxum sínum og sest aftur við borðið stuttu seinna.

Myndbandsupptaka frá seinna atvikinu sýnir manninn bera kynfæri sín fyrir utan verslun fyrir framan konuna sem gekk þá í kjölfarið á brott.

Skjáskoti frá því myndbandi var dreift til lögreglumanna sem leiddi til þess að einn þeirra kannaðist við manninn frá fyrri glæp hans og þar með voru málin tvö tengd saman.

Að mati dómsins kom sú atburðarás sem sást á myndbandsupptökunum heim og saman við framburði kvennanna í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert