Segja eldsupptökin ekki á Intro

Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag.
Miklar skemmdir urðu eftir eldsvoða á Höfðatorgi í dag. mbl.is/Anton

Múlakaffi segir að eldsupptökin á Höfðatorgi tengist ekki starfsemi veitingastaðarins Intro í glerskálanum á Höfðatorgi, þar sem mikill eldur kom upp fyrr í dag.

Múlakaffi hefur nú sent frá sér tilkynningu vegna eldsvoðans þar sem það sver af sér tengsl við eldsupptökin.

mbl.is greindi frá því í dag að eldur hefði komið upp viðbyggingu Turnsins á Höfðatorgi um hádegisbilið. Múlakaffi rekur þar veitingahúsið Intró en veitingasalurinn hefur orðið fyrir umtalsverðu tjóni.

Rýming gekk vel, engan sakaði og hefur slökkviliðið ráðið niðurlögum eldsins. Tjónið er engu að síður umtalsvert, að sögn Múlakaffis, og hefur í för með sér röskun á starfsemi hjá rekstraraðilum á jarðhæð Turnsins.

„Hugur okkar er hjá starfsfólki og öðrum rekstraraðilum í Turninum,” er haft eftir Guðríði Maríu Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra Múlakaffism í tilkynningunni.

Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis sem á og rekur Intro …
Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis sem á og rekur Intro á Höfðatorgi. Ljósmynd/Aðsend

Eldurinn tengist lagnaleið á milli kjallara og jarðhæðar

„Það er alltaf áfall þegar upp kemur eldur í fyrirtækjum eða á heimilum en við hjá Intro viljum koma því skýrt á framfæri að eldsupptök tengjast veitingastaðnum ekki á nokkurn hátt,” er haft eftir Guðríði Maríu.

Múlakaffi segir að eldsupptök séu talin tengjast lagnaleið á milli kjallara og jarðhæðar

„Eldurinn virðist hafa komið upp í lagnaleið sem liggur úr kjallara Turnsins upp í glerskálann á Höfðatorgi, sem gegnir hlutverki veitingasalar Intro. Glerskálinn og innanstokksmunir í honum urðu því fyrir töluverðu tjóni,“ segir í tilkynningunni.

Heimar, sem eiga húsnæðið, hafa sagt að eldsupptökin hafi líklegast orðið í lyftustokki, sem var reyndar lyftulaus.

Lítið tjón í eldhúsinu

Eldhús veitingastaðarins varð aftur á móti ekki fyrir teljandi tjóni.

„Unnið verður að því að koma því af stað sem allra fyrst enda eru fjölmargir viðskiptavinir orðnir vanir því að koma til okkar í hádeginu,” mun Guðríður hafa sagt samkvæmt tilkynningunni.

Glerskálinn í Turninum varð aftur á móti fyrir gríðarlegu tjóni. Skálinn er vinsæll veislusalur og ljóst að einhverjar veislur munu þurfa að finna sér annan vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert