Átti að fá greitt fyrir skotárásina á aðfangadag

Lögreglan brást við útkalli vegna skotárásar í Hafnarfirði þann 24. …
Lögreglan brást við útkalli vegna skotárásar í Hafnarfirði þann 24. desember 2024. mbl.is/Eggert

Árásarmaður sem dæmdur var fyrir tilraun til manndráps vegna skotárásar í íbúð í Hafnarfirði um jólin segist aðeins hafa ætlað aðeins að ógna manni sem þar bjó, ekki bana honum. Bílstjórinn sem ók honum á vettvang segir að maðurinn hafi unnið verknaðinn fyrir þriðja aðila gegn greiðslu.

Þrír menn um tvítugt voru í dag dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness til 1-5 ára fangelsisvistar í tengslum við skotárás sem þeir áttu aðild að síðasta aðfangadagskvöld. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms.

Hinn tvítugi Ásgeir Þór Önnu­son hleypti sex skotum inni í íbúð og hlaut fimm ára fang­elsisdóm fyr­ir til­raun til mann­dráps. Hinn tví­tugi Breki Þór Frí­manns­son skal sæta 30 mánaða fang­elsis­vist fyr­ir hlutdeild í húsbroti og vopnalagabroti.

Þá hlaut 19 ára maður eins árs skil­orðsbund­inn dóm fyrir að aka þá til og frá vettvangi en fullnustu refsingarinn­ar er frestað og fell­ur hún niður að liðnum þrem­ur árum frá birt­ingu dóms. Ökumaðurinn hafði ekki þekkt árásarmanninn fyrir.

Greiddu 80 þúsund fyrir skutl

Ásgeir og Breki Þór réðust inn á heimili í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld klæddir lambhúshettum. Ásgeir hleypti af sex skotum úr Colt 45 skammbyssu í átt að herbergi þaðan sem hann heyrði karlmannsrödd og í átt að stúlku og föður hennar en skotin höfnuðu þó ekki í þeim.

Stúlk­an hlaut þó eymsli í and­liti eft­ir að óþekkt brak hafnaði í and­liti henn­ar í kjöl­far þess að eitt skotið hafnaði á hörðum fleti.

Breki hafði þegið boð um að „bakka upp“ félaga sinn en kvaðst muna lítið eftir þessu þar sem hann hafi verið undir áhrifum og m.a. verið búinn að taka inn kókaín og benzo. 

Mennirnir greiddu þriðja manni, sem er 19 ára, 80 þúsund krónur til að aka þá til og frá vettvangi. Ökumaðurinn mun ekki hafa vitað hvert erindið var en ekki velkst í vafa um það að mennirnir voru ekki að fara á þangað í vinsamlegum tilgang. Ökumaðurinn kvaðst aldrei hafa séð sjálfa byssuna.

Mennirnir þrír skiptu einnig um bílnúmeraplötu á bifreiðinni fyrir og eftir verknaðinn. 

600 þúsund krónur til að ógna brotaþolanum

Ásgeir sagðist ekki hafa ætlað sér að skjóta á manneskju, hvað þá 9 ára barn, eða bana brotaþolunum. Tilgangurinn hafi aðeins verið að ógna og lemja brotaþolann, sem bjó í íbúðinni en Ásgeir þekkti ekki.

Ásgeir gaf ekki upp hvers vegna hann hafi ætlað að ógna brotaþolanum.  Breki vildi heldur ekki tjá sig um það hvers vegna hafi átt að ógna brotaþola og hann kvaðst ekki vita hvar Ásgeir hefði fengið byssuna.

Samkvæmt vitnisburði ökumannsins áttu meðákærðu að fá 600 þúsund krónur greiddar til að ógna brotaþolanum og þeir væru að framkvæma verknaðinn fyrir þriðja aðila. Taldi hann sig hafa heyrt ákveðið nafn í því samband.

Þær upplýsingar sem ungi ökumaðurinn veitti lögreglu voru m.a. ástæða fyrir því að aðeins 12 mánaða dómur féll yfir manninum. 

Byssan gerð upptæk

Ásgeir var dæmdur í fimm ára fangelsi. Breki Þór hlaut þrjátíu mánaða fangelsisdóm en ökumaðurinn hlaut aðeins eins árs fangelsisdóm skilorðsbundinn til þriggja ára.

Með hliðsjón af ungum aldri ökumannsins og högum hans að öðru leyti – sálfræðingur sagði hann vera með framheilaskaða – þótti rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður eftir 3 ár haldi hann almennt skilorð.

Skammbyssan var gerð upptæk.

Ásgeir og Breki voru dæmdir til að greiða konunni tvær milljónir króna auk vaxta, og föðurnum eina og hálfa milljón auk vaxta. Þá var þeim gert að greiða húseigendum heimilisins í Hafnarfirði eina milljón króna hvor auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert