„Áverkar til að valda sársauka“

Atvikið átti sér stað við Bátavog í Reykjavík í september …
Atvikið átti sér stað við Bátavog í Reykjavík í september í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ljóst er að margir þættir gætu hafa átt sinn hlut í andláti mannsins sem Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir er ákærð fyrir að bana. Þýskur sérfræðingur í réttarlæknisfræði og íslenskur réttarlæknir sammælast þó um að köfnun sé líklegustu dánarorsökin. Einnig að maðurinn varð fyrir miklum áverkum og að þeir voru veittir skömmu fyrir andlátið. Áverkana er þó hægt að túlka með mismunandi hætti.

Dagbjört var ekki viðstödd dómþing í dag, en hún yfirgaf dómsal eftir að skýrslutöku hennar lauk fyrir hádegi í gær. Hún hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hún var handtekin í september.

Í skýrslutökunni neitaði hún að hafa nokkurn tímann beitt manninn ofbeldi og sagði að hann hefði verið „sídettandi“.

Við réttarkrufningu komu í ljós fjölþættir áverkar á hinum látna.

Í skýrslu útvíkkaðar réttarkrufningar frá 10. janúar kom síðan fram að rannsóknarniðurstöður benda sterklega til þess að dánarorsökin hafi verið köfnun vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn, auk þess sem samverkandi þættir vegna beináverka hafi stuðlað enn  frekar að framvindu köfnunarferlisins. Þá kom fram að rannsóknarniðurstöður bendi sterklega til þess að áverkarnir sem leiddu til dauðans hafi verið viljaverk annars manns.

Í febrúar var síðan óskað eftir matsgerð þýska sérfræðingsins. Hann mat áverka mannsins útfrá ljósmyndum af líkinu og rannsókn á vefjasýnum sem var gerð á Íslandi. Hann hafði ekki rannsóknargögn lögreglu til hliðsjónar.

Þýski sérfræðingurinn var fyrstur til að bera vitni á þessum öðrum degi í aðalmeðferð Bátavogsmálsins. Hann var fenginn til að meta tiltekna þætti varðandi dánarorsök hins látna í febrúar. Á eftir honum kom íslenskur réttarlæknir, sem framkvæmdi krufninguna, fyrir dóminn.

„Áverkarnir nægðu til að valda honum dauða“

Þýski sérfræðingurinn sagði það greinilegt af ljósmyndunum að dæma að stór hluti áverka mannsins hefðu verið nýlegir.

Hann sagði að þegar um slíka áverka væri að ræða væri ekki hægt að tímasetja þá nánar en um einn til tvo daga fyrir andlát. Í ákæru segir að Dagbjört hafi beitt mannin margþættu ofbeldi dagana 22. og 23. september, en hann lést um kvöldið þann 23.

Líkt og áður sagði vildi Dagbjört meina að maðurinn hefði dottið mikið áður en hann lést, en hann var mikill drykkjusjúklingur.

Íslenski læknirinn sagði að óvenju mikið af áverkum hefðu verið á manninum, einnig fyrir mann sem drakk mikið og var valtur á fæti.

„Áverkar til að valda sársauka,“ sagði íslenski læknirinn á einum tímapunkti er hann var að tala um skrámur með marblettum á geirvörtum mannsins.

Þá sagði læknirinn í skýrslutökunni: „Áverkarnir nægðu til að valda honum dauða.“

Hann sagði að þar sem ekki sáust för eða álíka ummerki á húð mannsins má áætla að líkamsþyngd hafi verið notið til þess að valda áverkunum.

Þurfti talsverðan kraft

Bæði þýski sérfræðingurinn og íslenski læknirinn voru mikið spurðir af sækjanda og verjanda hvernig ætti að túlka áverkana. Ljóst er að ekki er hægt að útiloka að einhverjir þeirra gætu hafa orðið eftir fall eða annað slíkt. En margir áverkarnir voru flóknir og ljóst að það þyrfti talsverðan kraft til þess að valda þeim. Þá var margt sem benti til að áverkarnir hefðu orðið til á fleiri en einum tímapunkti.

Bæði vitnin sögðu að maðurinn bæri merki um varnaráverka á framhandleggjunum, en ekki er hægt að útiloka að þeir séu tilkomnir af öðrum ástæðum.

Þá voru báðir sérfræðingar spurðir út í hvaða áverkar væru eðlilegir við endurlífgun, en maðurinn var tengdur við svokallaðan Lúkas, sjálfvirka endurlífgunarvél, er hann var fluttur með sjúkrabíl. Vitnin sögðu rifbeinsbrot dæmigerð við endurlífgun, en rifbeinsbrot að aftan líkt og maðurinn var með ódæmigerða áverka. Þau gætu hafa orðið fyrir tilstilli annarrar manneskju.

Flóknari en „bíómyndarkyrking“

Áverkar á hálsi mannsins voru einnig mikið til umræðu, en líkt og áður sagði benda rannsóknarniðurstöður sterklega til þess að dánarorsök mannsins hafi verið köfnun.

Samkvæmt rannsókn á vefjasýni sem gerð var hérlendis höfðu áverkar á efra svæði barkakýlis mannsins orðið til mjög nærri dánarstund hans. Þýski sérfræðingurinn sagði að verulegt afl þyrfti til að valda þessum áverka, eða 10 til 80 kílóa afl. Sá áverki gæti hafa leitt til dauða mannsins, að sögn sérfræðinganna beggja.

Verjandi spurði hvort líklegt væri að hinn látni hefði verið kyrktur til þess að stoppa súrefnisflæði sem leiddi hann síðan til dauða. Þýski sérfræðingurinn sagði það svo sannarlega mögulegt, en á grundvelli innri áverka mannsins er þó ekki hægt að fullyrða það.

Íslenski læknirinn nefndi að miðað við áverkana á hálsi mannsins væri fall nánast útilokað. Til þess að andlát vegna köfnunar, líkt og maðurinn þurfti líklega að þola, þyrfti flókið slys svo sem tívolíslys, en að það væri samt langsótt.

Verjandi spurði lækninn hvort að áverkarnir væru flóknari en í kyrkingum sem sjást til dæmis í bíómyndum. Læknirinn svaraði að kyrking skilur yfirleitt eftir sig „snyrtilega“ áverkamynd. Í þessu tilfelli væru miklu fleiri og flóknari áverkar.  

Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Dagbjartar, í dómsal í gær.
Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Dagbjartar, í dómsal í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útilokar nánast fall

Íslenski læknirinn fékk að sjá myndbandsupptökur úr símum parsins frá 22. og 23. september. Sársaukavein mannsins heyrast meðal annars á upptökunum.

Læknirinn sagði að hann hefði ekki farið í djúpa greiningu á þeim gögnum og ekki sérstaklega lagt til grundvallar krufningaskýrslunnar. Þá hafði læknirinn líka upplýsingar um að maðurinn hefði dottið mikið vegna drykkju.

Dómari sagði þá að það hljómaði eins og að læknirinn væri nánast að útiloka fall: „[Mér] myndi aldrei detta það í hug að þetta [andlátið] myndi koma til við fall,“ svaraði læknirinn. 

Blóðsykursfall?

Þýski sérfræðingurinn nefndi að skarpt blóðsykursfall hafi getað átt þátt í andláti mannsins. Þá fannst mikið áfengismagn í blóði hans, auk amfetamíns.

Dagbjört sagði fyrir dómi í gær að maðurinn hefði lítið sem ekkert borðað dagana áður en hann lést, en drukkið mikið áfengi.

Þýski sérfræðingurinn sagði þó að langlíklegast væri að ytri valdbeiting væru dánarorsök miðað við margþættu áverkana. Hann útilokaði þó ekki að blóðsykursfallið í bland við áfengismagnið og amfetamínið gæti valdið dauða eitt og sér.

Íslenski læknirinn sagði að ekki væri hægt að túlka sýni sem voru tekin úr slímhúð augna mannsins sem merki um lágan blóðsykur, líkt og Þjóðverjinn telur. Um væri að ræða rannsókn sem er ekki viðurkennd hér á landi.

Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni.
Arnþrúður Þór­ar­ins­dótt­ir, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, er til hægri á mynd­inni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slæmt heilsufar

Íslenski læknirinn greindi frá því að heilsufar mannsins hefði ekki verið gott.

Meðal annars hefði lifrin hans ekki verið í góðu standi og bar merki þess að hann væri byrjaður að byrja þróa með sér lifrabólgu sökum ofdrykkju. Læknirinn taldi þó manninn ekki hafa dáið vegna fitulifur.

Saksóknari spurði hvort að maðurinn hefði mögulega geta dáið af völdum áfengiseitrunar. Íslenski læknirinn sagði það ósennilegt í ljósi heilsufars mannins og áverkanna. Þá nefndi hann að maðurinn hefði ábyggilega byggt upp meira þol fyrir áfengi en venjulegur einstaklingur í ljósi sögu hans.

Vefjarannsóknin sýndi fram á blæðingar í heila og æðum mannsins sem gæti bent til truflunar á blóðstorknun sem er dæmigerð hjá langt leiddum áfengissjúklingum.

Verjandi spurði lækninn hvort að heilbrigður maður hefði geta lifað álíka áverka af. Læknirinn útilokaði ekki að frískur og heilbrigður maður hefði getað lifað af. Heilsufar mannsins gæti hafa átt þátt í andláti hans þar sem það gerði hann veikari fyrir.

Aðalmeðferð í Bátavogsmálinu lýkur á morgun með málflutningi verjanda og sækjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert