Fjarskiptalæknir bráðaþjónustu ráðinn

Með verkefninu er tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti …
Með verkefninu er tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti til þess að sinna bráðri læknisfræðilegri ráðgjöf. Ljósmynd/Colourbox

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar fjarskiptalækni bráðaþjónustu.

Um er að ræða faglega ráðgjöf bráðalæknis fyrir Neyðarlínu, sjúkraflutninga og aðra veitendur bráðrar heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Landspítalanum var falið að koma þjónustunni á laggirnar og styðja við bakið á þessari nýju þjónustu, og hefur fjarskiptalæknirinn þegar tekið til starfa.

Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir þar, að það sé forgangsatriði stjórnvalda að auka aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu við slys eða bráð veikindi. Það sé því mikilvægt að styðja við þessa þjónustu í dreifðum byggðum og í sjúkraflutningum.

Þetta verkefni verður þróað áfram í samráði við notendur þjónustunnar, með það að markmiði að bjóða upp á sólarhringsþjónustu, alla daga ársins. Hann telur að verkefnið muni styrkja bráðaþjónustu í landinu verulega.

Tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti

Með verkefninu er tryggt aðgengi að lækni í gegnum fjarskipti til þess að sinna bráðri læknisfræðilegri ráðgjöf. Fjarskiptalæknirinn sinnir læknisfræðilegri stjórnun og ráðgjöf fyrir sjúkraflutninga, bráða-læknisráðgjöf fyrir heilsugæslu í dreifbýli, fjarheilbrigðisþjónustu fyrir sjófarendur, vettvangsliða og björgunarsveitir, auk faglegrar ráðgjafar við Neyðarlínu, meðal annars til ákvörðunar um notkun sjúkraflugs og þyrlu.

Fjarskiptalæknirinn er staðsettur í Björgunarmiðstöðinni í Skógahlíð. Í upphafi verður þjónustan í boði frá kl. 8-16 alla virka daga sem er mesti álagstími bráðatilvika, en stefnt er að því til framtíðar að bjóða upp á þjónustuna allan sólarhringinn, allan ársins hring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert