Óþarflega illa talað um veðrið

Sólskinsstundir í júní ekki verið fjarri meðallagi að sögn Trausta.
Sólskinsstundir í júní ekki verið fjarri meðallagi að sögn Trausta. mbl.is/Arnþór

„Mér finnst eiginlega hafa verið verr talað um veðrið en það á skilið,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur spurður um veðurfarið nú í byrjun sumars.

Að sögn Trausta hafa sólskinsstundir í júní ekki verið fjarri meðallagi og úrkoma heldur ekki verið sérstaklega mikil samanborið við fyrri ár. „Það kemur dálítið á óvart hvað allir tala um hvað hann hefur verið daufur hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Trausti um líðandi mánuð í samtali við blaðamann mbl.is.

Gullmedalíu-hret á Norðurlandi

Trausti tekur þó fram að hret á Norðurlandi í byrjun mánaðar hafi verið sérstaklega leiðinlegt „Þetta er svona gullmedalíu-hret, þetta er alvöru hret,“ segir hann en bætir við að allar afleiðingar óveðursins liggi enn ekki fyrir.

Snjókoma á Blönduósi í byrjun júní.
Snjókoma á Blönduósi í byrjun júní. mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

„Það hafa nú komið allmörg svona hret áður á þessum tíma og afleiðingar þessa hrets eru náttúrulega ekki alveg komnar í ljós þannig að það er svolítið erfitt að setja það í flokk,“ segir hann og útskýrir að ekki sé tímabært að meta hvort hret þetta hafi verið það versta í mörg ár.

Vaninn að menn tali illa um svona atburði

„Þó að menn tali mjög illa um það og kvarti þá er það bara vaninn. Menn tala illa um svona atburði,“ segir hann en bætir við að ekki sé almennilega hægt að meta hvað hafi verið sérstakt við hretið fyrr en um mánuður hefur liðið frá því. Trausti tekur þó fram að hret af þessu tagi valdi óheppilegum seinkunum í öllum landbúnaðarstörfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert