Möguleg virkjun kornið sem fyllti mælinn

Frá Laugum í Reykjadal.
Frá Laugum í Reykjadal. mbl.is/Einar Falur

„Við erum kannski ekki alveg sammála um að það sé trúnaðarbrestur þó að listinn kjósi ekki eins í öllum málum.“

Þetta segir Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti sveitarstjórnar í Þingeyjarsveit, en í gær sprakk meirihlutinn í sveitarfélaginu. Ósætti um mögulega virkjun í Skjálfandafljóti virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn.

„Það er ein af grunnreglum sveitarstjórnarlaganna - held að það sé 25. grein - sem byggir á stjórnarskrárákvæðinu um að sveitarstjórnarmenn eru sjálfstæðir í störfum sínum og ber ekki að kjósa eftir flokkslínum eða listalínum í einstökum málum – ber eingöngu að fara eftir eigin sannfæringu.“

Nýr meirihluti þegar myndaður

E-listinn var með hreinan meirihluti en Gerður og Knútur Emil Jónas­son (E-listi) kusu ekki í takt við hina þrjá bæjarfulltrúa E-listans í þremur málum. Nýr meiri­hluti hef­ur verið myndaður af K-list­an­um, Gerði og Knúti. 

Þrír bæjarfulltrúar E-listans tilkynntu í gær að meirihlutasamstarfinu með Gerði og Knúti væri lokið „vegna al­var­legs trausts- og trúnaðarbrests á milli full­trúa meiri­hlut­ans“.

Ósammála um virkjun í Skjálfandafljóti

Í þrígang kusu Gerður og Knútur gegn hinum þremur bæjarfulltrúunum en Gerður segir að helsta málefnið hafi verið virkjunarmál tengt Skjálfandafljóti.

„Í síðasta aðalskipulagi Þingeyjarsveitar kom fram að Skjálfandafljót skyldi ekki virkja. Við Knútur vildum halda þeirri stefnu óbreyttri en þeir vildu breyta henni vegna þess að þeir hafa talað fyrir lítilli virkjun í miðjum Bárðardal. Sem að við teljum vera of litla, fyrir of litla hagsmuni fárra, til þess að fara raska þessu óraskaða fljóti. Það er svona meginmálið í þessu,“ segir Gerður.

Hún segir þetta mál ekki endilega vera sveitarstjórnarmál heldur umhverfisverndarmál og náttúruverndarmál.

„Þegar menn fara fram með að ætla að virkja svona stórt vatnasvið eins og Skjálfandafljót er – það er 180 kílómetrar – og ávinningurinn er nánast enginn fyrir sveitarfélagið nema fasteignagjöld af stöðvarhúsi. Það er ávinningur fyrir þrjá landeigendur og framkvæmdaaðila,“ segir hún.

Líklega virkjað seinna

Hún segir nær víst að Skjálfandafljót verði virkjað einn daginn en þá verði meiri sátt um það ef það væri stærri virkjun sem yrði vel vönduð.

„Heldur en að fara skella niður litlum virkjunum hér og þar. Þetta sveitarfélag er að framleiða alveg gríðarlega mikla orku nú þegar.“

Skjálfandafljót.
Skjálfandafljót. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert