Sigruðu „grafreit draumanna“

Þvert ofan í reglur fengu syndaselirnir að stíga á land …
Þvert ofan í reglur fengu syndaselirnir að stíga á land í Frakklandi en strangt til tekið hefði aðeins Erna, sem lauk sundinu, átt að mega það. Frá vinstri: Magnea Hilmarsdóttir, Elísa Kristinsdóttir, Agnieszka Narkiewicz-Czurylo, Birna Björnsdóttir, kraftaverkakona og afmælisbarn, Kath Howlet, Sara Friðgeirsdóttir og Erna Héðinsdóttir viðmælandi. Ljósmynd/Skipstjórinn

„Þetta gekk bara fínt, við fengum ótrúlega flott veður, sérstaklega um miðjan daginn,“ segir Erna Héðinsdóttir sjósundkappi sem kom ásamt föruneyti sínu í mark á strönd Frakklands nú fyrir skömmu eftir sautján klukkustunda og sjö mínútna sund sem hófst á fimmta tímanum í nótt að breskum tíma.

Var þar um að ræða fimmtíu ára afmælissund Birnu Björnsdóttur, sem fagnaði þeim merka áfanga í lífaldri sínum 18. júní. Birna slasaðist alvarlega í umferðarslysi fyrir rúmum tveimur áratugum og voru sérfræðingar slegnir efa um að hún kæmist nokkru sinni til heilsu. Í dag sigraði hún Ermarsundið hins vegar.

„Þrjóskuðumst í gegnum það“

Gekk sundið allt að óskum þótt þær valkyrjanna sjö, sem áttu leik í boðsundsfyrirkomulaginu í hinum svokallaða „grafreit draumanna“, hafi mátt taka á honum stóra sínum en Erna lýsir þessu annálaða svæði Ermarsundsins þannig að straumarnir verði óhagstæðir auk þess sem aldan verði sundfólki gjarnan óþægur ljár í þúfu.

„Þar hægði vel á okkur en það er mjög algengt að fólk gefist upp í grafreit draumanna,“ segir Erna og skyldi engan undra miðað við nöturlega nafngiftina, en þær sundkonur fengu að kenna á stífu andstreymi í grafreitnum.

„En við þrjóskuðumst bara í gegnum það, á meðan við komumst eitthvað áfram fengum við að halda áfram,“ segir Erna enn fremur og kveðst aðspurð ánægð með tímann. „Það gekk svo vel um miðjan daginn að við gerðum okkur alveg vonir um að vera aðeins fljótari, en tíminn skiptir engu máli, þetta er bara spurning um að klára,“ segir lyftingadómarinn og sundgarpurinn með sannfæringu þess sem tekist hefur á við óblíða náttúruna.

Haldi einhver að Ermarsundið sé eitthvert grín má sjá feril …
Haldi einhver að Ermarsundið sé eitthvert grín má sjá feril kvennanna sjö hér. Skjáskot/Erna Héðinsdóttir

Veikindi og bras

Hver sundkvennanna synti að minnsta kosti tvisvar í boðsundinu og fjórar þeirra raunar þrisvar, „og ég synti þarna í einhverjar sjö mínútur undir lokin“, segir Erna, en það kom í hennar hlut að ljúka sundinu og stíga fyrst föruneytis síns á franska grund sem hún mun raunar stíga aftur á í ágúst þegar hún heldur til Parísar til að dæma ólympískar lyftingar á sjálfum Ólympíuleikunum, fyrst Íslendinga í sögu leikanna.

Tók þetta meira eða minna á en þið reiknuðuð með?

„Það var rosalega misjafnt. Sumar okkar lentu leiðinlegri öldu og smá veikindum og brasi og áttu erfiða tíma, en ég gæti persónulega gert þetta aftur um næstu helgi. Við erum samt allar rosalega svipaðar að getu. Ég fékk rosalegan straum í bakið í öðrum sprettinum mínum, á GPS-inu synti ég 5,6 kílómetra á klukkutíma en ég syndi svona tvo og hálfan á klukkutíma,“ segir Erna og hlær við. „Ég fékk allan meðbyrinn og flaug áfram.“

Birna Björnsdóttir í bláum sjó með gámaskip í baksýn.
Birna Björnsdóttir í bláum sjó með gámaskip í baksýn. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir hópinn hjálpast að við erfiðar aðstæður og þær hafi stutt hver aðra „með bláa vör eftir öldunnar koss“, svo vitnað sé í gamalt og gott verk Bubba Morthens um hörmulegt sjóslys við Austfirði jólin 1986.

Allir þurfa að skila sínu

Erna ber áhöfn fylgdarbátsins vel söguna, þar hafi farið hreint einvalalið, skipstjóri, eiginkona hans og dómari sundsins. „Þetta er frábært fólk sem við erum með hérna,“ segir Erna sem stödd er um borð ásamt íslenska hópnum og siglingin til baka til breska heimsveldisins fyrrverandi nýhafin.

„Nú ætla ég og einhverjar úr hópnum bara að drífa okkur sem fyrst heim til Íslands en sumar eru að fara í heimsóknir annað og fleira,“ segir Erna, en þar sem ekki var ljóst með brottfarartíma þeirra, eins og útskýrt er í viðtalinu handan hlekksins hér að ofan, sömdu þær við hótelið um að fá endurgreiddar ónýttar gistinætur.

Erna á lokametrunum við Frakklandsströnd þangað sem hún mun snúa …
Erna á lokametrunum við Frakklandsströnd þangað sem hún mun snúa á ný í ágúst til að dæma lifendur og...aðra í ólympískum lyftingum á Ólympíuleikum sumarsins. Ljósmynd/Aðsend

„Í svona verkefni þurfa allir að standa saman og allir að skila sínu, líka í brekkunum,“ segir Erna þar sem hún stendur hnarreist á skipsfjöl. „Allt gekk upp miðað við hvað við lögðum upp með og meira til. Við hringdum í 66 Norður og spurðum hvort þeir vildu gefa okkur galla og töskur og þeir spurðu hvort við vildum líka sundboli. Við fengum fáránlega gott veður og allt sem við óskuðum okkur og meira til,“ segir Erna Héðinsdóttir, á heimleið á miðju Ermarsundi eftir frækið afrek sjö kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert