Tanngnjóstur og Tanngrisnir

Mikilvægt starf hefur verið unnið á Háafelli við að bjarga …
Mikilvægt starf hefur verið unnið á Háafelli við að bjarga íslenska geitastofninum. Ljósmynd/Aðsend

Þrumuguðinn Þór er sagður hafa átt tvo geithafra sem drógu vagninn hans, þá Tanngnjóst og Tanngrisni. Hann gat svo að segja „endurunnið“ geithafranna eftir að hafa borðað af þeim kjötið, með því einu að setja beinin aftur í skinnin og sveifla hamrinum.

Saga geitarinnar á Íslandi nær aftur til landnáms, fyrir 1.100 árum. Auðvelt hefur verið að flytja geitur með skipum því þær þurfa lítið fóður til að gefa holla mjólk. Engin dýr eiga jafn mörg örnefni á Íslandi og geitur.

Líklega hefur íslenski geitastofninn haldist hérlendis án innblöndunar frá landnámi og er því sérstofn á heimsvísu. En stofninn telst enn vera í útrýmingarhættu.

Geitamamma

Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir eða „geitamamma“ eins og hún er gjarnan kölluð mætir gestum með hlýju á bænum Háafelli á Hvítársíðu í Borgarfirði. Hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði áður sem slíkur til að mynda á geðdeild Kleppsspítala. Eftir að hafa eignast fimm börn á sex og hálfu ári hætti Jóhanna störfum sem hjúkrunarfræðingur og fór alfarið í búskap á sínum heimabæ, Háafell, þar sem hún er fædd og uppalin.

Jóhanna rekur sögu geitarinnar á Íslandi og þess hvernig geitabúskapur hófst á bænum Háafelli. Hægt er að lesa í augnsvipinn að hún hefur upplifað tímana tvenna. Áhuginn er slíkur að strax í byrjun frásagnar nær hún að fanga athyglina á augabragði.

Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir eða geitamamma eins og hún er oft …
Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir eða geitamamma eins og hún er oft kölluð. Ljósmynd/Aðsend

Kýr fátæka mannsins

Ísland er eina landið í heiminum þar sem geitur hafa þurft að aðlagast því að éta gras en í grunninn eru þær laufætur. Í kuldanum sem hér ríkir hefur ull þeirra þróast yfir í að vera kasmírull.

Á stríðsárunum voru geiturnar kýr fátæka mannsins. Þær gegndu því mikilvæga hlutverki að vera mjólkurgjafi í sjávarþorpunum því á þeim tíma skrapp fólk ekki út í búð til að kaupa mjólk. Það var auðveldara og ódýrara að eiga geit heldur en kú.

„Mest er um geitur þar sem fátæktin er mest,“ segir Jóhanna.

Bjarga þurfti stofninum

Jóhanna tók við búinu að fullu árið 1989 en sama ár fékk hún þrjár fyrstu geiturnar. Þetta byrjaði sem áhugamál. Sem barn hafði hana ávallt langað í geit. Það kom víst ekki til greina enda taldi faðir hennar geitur vera „ólíðandi kvikindi“ en hann hafði heldur aldrei kynnst þessum dýrum.

Hún horfði fram hjá mýtunni um að geitur væru óþekktarangar sem eyðileggðu allt og með tímanum sá hún mikilvægi þess að vernda stofninn.

Það var svo árið 1999 að einungis fjórar geitur voru eftir á landinu sem voru kollóttar og þar af var aðeins ein með þennan gula eða gulgolsótta lit. Þær voru komnar með pláss í sláturhúsi þegar Jóhanna og fjölskylda fengu leyfi til að flytja geiturnar á Háafell.

„Þá kom svona manía í mig að rækta þennan stofn og reyna að bjarga honum frá útrýmingarhættu og kenna fólki að meta geitarafurðirnar aftur.“

Þær njóta sín geiturnar á Háafelli.
Þær njóta sín geiturnar á Háafelli. Ljósmynd/Aðsend

Allar hefðir í sambandi við geitur týndust

Frá stríðsárunum lifðu geiturnar sem gæludýr í sextíu ár og voru í raun lítið sem ekkert nýttar. Það var enginn að mjólka - enginn að nota neinar afurðir þegar Háafell byrjaði geitabúskapinn. Með tímanum hefur vöruúrvalið frá Háafelli aukist og má þar finna allt frá geitaskinni, pylsum, paté, osti og fleira matarkyns yfir í sápur og aðrar húðvörur. Að nota geitamjólk í húðvörur hefur tíðakast öldum saman.

Jóhanna segist enn vera að læra hvað megi vinna úr afurðinni og í hvað hægt sé að nýta vörurnar. Tólgin er svo græðandi og bólgueyðandi en hún hefur annarsstaðar í heiminum verið notuð á sár, bruna, gyllinæð og frunsur.

Aðallega tveir veitingastaðir hafa keypt geitakjöt frá Háafelli en sífellt meiri eftirspurn er eftir slíku kjöti og fleiri veitingastaðir farnir að biðja um slíkt.

Háafell heimsótt

Á síðustu fimmtán árum hefur fjölskyldan á Háafelli verið að taka á móti gestum sem greiða aðgangseyri fyrir að heimsækja geiturnar. Gestafjöldinn hefur haldist stöðugur milli ára, í um 7-8000 manns. Helmingur gesta eru Íslendingar og flestir koma þeir að sumrinu. Gestafjöldinn er þó farinn að dreifast jafnt yfir árið en það er enginn mánuður gestalaus.

Hnökrar komust á reksturinn eftir hrun og árið 2014 var kominn uppboðsdagur á jörðina að Háafelli. Þá seldi fjölskyldan 80 hektara út úr jörðinni. Jóhanna segir líkt og eitthvað hafi skort á stuðning frá íslenska ríkinu en þeim hafði til dæmis verið lofaður stuðningur eftir að hafa tekið við kollóttu geitunum 1999 en svo virðist sem hann hafi gleymst.

Jóhanna lýsir því sem svo að í augum ríkisins var hún aðeins einn bóndi. En það gleymdist að þessi eini bóndi var með allt genamengi geitarinnar.

„Ef við hefðum tapað jörðinni þá hefðu allar geiturnar farið og það væri ekki ein einasta kollótta eða brún geit í heiminum í þessum stofni.“

Það var svo vinkona Jóhönnu sem stofnaði til hópfjáröfluar á netinu og fólk allsstaðar að úr heiminum lét geitur á Íslandi sig máli skipta. Fjáröflunin gekk upp svo fjölskyldan á Háafelli fékk fjármagn til að endursemja við bankann.

Auðvelt er fyrir börn að nálgast kiðlingana enda elska þeir …
Auðvelt er fyrir börn að nálgast kiðlingana enda elska þeir að fá klapp og knús. Ljósmynd/Aðsend

Þar með gat fjölskyldan haldið áfram verndun íslenska geitastofnsins - verndun dýrastofns í útrýminarhættu.

Geiturnar eru ofsalega spakar. Kiðlingarnir víla ekki fyrir sér að stökkva í fangið á börnum og gamalmennum á milli þess sem þeir sprikla um túnið. Ekki skrýtið að þessi mannelsku dýr hafi verið þau fyrstu sem maðurinn tamdi sér til sambúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert