Tilraunamalbik lagt á Reykjanesbraut

Frá framkvæmdunum í gær.
Frá framkvæmdunum í gær. Ljósmynd/Aðsend

Vegagerðin og malbikunarstöðin Colas lögðu í gær út tilraunamalbik á Reykjanesbraut, nálægt Vogaafleggjara. Þrjár mismunandi tegundir malbiks voru lagðar út, ein með venjulegu malbiki, ein með lífbindiefni sem er aukaafurð úr pappírsvinnslu og ein með lífbindiefni úr grænmetisolíum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Colas. Þar segir einnig að þetta sé í fyrsta sinn sem lífbindiefni sé notað í malbik með þessum hætti á veg hér á landi. Áður hafi verið lagt sambærilegt malbik á göngustíg í Hafnarfirði sem hafi tekist vel.

Notað í Evrópu

Samskonar lífbindiefni hafa verið notuð í malbik í Evrópu og segir í tilkynningunni að miklar prófanir hafi verið gerðar á rannsóknarstofum.

„Þrátt fyrir að lífbindiefnin séu ólík að gerð þá eiga þau það sameiginlegt að vera kolefnisneikvæð. Það þýðir að kolefnisspor biksins er að allt að 85% minna en kolefnisspor venjulegs biks.

Auk þess að minnka kolefnisspor biksins þá mýkir lífbindiefnið malbikið. Æ erfiðara verður að fá bik sem hentar íslenskum aðstæðum þar sem auðlindir eru af skornum skammti. Á Íslandi eins og annars staðar á norðurhveli jarðar, þar sem kaldara er, þarf mýkra bik og ef vel tekst til með tilraunalögnina tryggir íblöndunin efni í malbik til framtíðar,“ segir í tilkynningunni.

Munu flygjast grannt með þróuninni

Þá verða malbiksblöndurnar sem lagðar voru út á Reykjanesbraut sendar til ítarlegri prófana á óháðri rannsóknarstofu.

„Allar þrjár malbiksblöndurnar sem lagðar voru út á Reykjanesbrautinni verða sendar til ítarlegri prófana á óháðri rannsóknarstofu og mun Colas halda áfram að fylgjast grannt með þróun á vegarkaflanum. Bráðabirgðaniðurstöður ættu að liggja fyrir í haust en fylgst verður náið með þróuninni næstu 5 árin, með tilliti til hemlunarviðnáms og hjólfaramyndunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert