„Klassískt íslenskt sumarveður“ í kortunum

Á morgun verður suðvestlæg átt og verður nokkuð þurrt og …
Á morgun verður suðvestlæg átt og verður nokkuð þurrt og bjart á Suðausturlandi og á miðju Norðurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klassískt íslenskt sumarveður er í kortunum næstu daga að sögn veðurfræðings.

Á morgun verður suðvestlæg átt og verður nokkuð þurrt og bjart á Suðausturlandi og á miðju Norðurlandi.

„Skilin sem voru að fara yfir verða yfir austurlandi í fyrramálið og Austfjörðum. Þannig það nær ekki að hitna eins og mikið og það var þar í dag. Þannig það léttir ekki til fyrr en eftir hádegi. Þannig að morgundagurinn er ekkert sérstakur neins staðar, ekki framúrskarandi,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hiti mestur á Norðausturlandi

Á þriðjudag verður víða rigning á sunnan- og vestanverðu landinu.

„Alls ekki mikil, það er hægur vindur og þokkalega milt. Svona almennt ágætt veður,“ segir Óli.

Hiti verður 8 til 17 stig og má vænta þess að hann verði mestur á Norðausturlandi. Óli segir að upp á öræfum og Mývatnssveit gæti þó hitinn orðið mestur. Með „smá heppni“ gæti hitinn mögulega náð allt að nítján gráðum á þeim svæðum.

Norðaustan gola á miðvikudag

Á miðvikudag verður norðaustan gola, dálítil rigning eða súld með köflum.

„Hún er hæg, það er eitt af vandamálunum því við fáum þá ekki hlýindin ekki alla leið hingað,“ segir hann og bætir við:

„Þannig miðvikudagurinn er hvergi neitt sérstakur,“ segir hann.

Frá og með fimmtudegi þá batnar veðrið á suðurhelming landsins og verður bjartara veður. Á móti kemur að vænta má síðdegisskúra.

„Þetta er nú svona klassískt íslenskt sumarveður,“ segir Óli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert