Bíða með kvörtun vegna bikblæðinga

Vegagerðin hefur farið í framkvæmdir á bikblæðingum á Fagradal.
Vegagerðin hefur farið í framkvæmdir á bikblæðingum á Fagradal. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson

„Ég skal alveg viðurkenna það að við höfum haft alveg bölvaðar áhyggjur af þessum blæðingum og viðhaldi vega en vonandi eru menn að bregðast við með þessum hætti núna,” segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, um bikblæðingar á Fagradal á Austurlandi. 

Fjarðabyggð íhugaði að senda inn ályktun eða kvörtun til Vegagerðarinnar vegna blæðinganna. Á bæjarráðsfundi í morgun var aftur á móti ákveðið að bíða nánari upplýsinga eftir að í ljós kom að Vegagerðin hafði þegar hafið framkvæmdir á vegunum, að sögn Jóns Björns. 

Vegagerðin varaði við bikblæðingu á Fagradal í gær. Margir ökumenn voru ósáttir við það og töldu veginn ófæran. 

Yfirleggja með möl 

„Vegagerðin er víst búin að taka þessa blæðingastaði og yfirleggja þá. Mér skilst að það sé búið að leggja þetta með möl,” segir Jón Björn og bætir við: 

„Mér skildist á mínum kollega sem hafði verið að kynna sér þetta með Vegagerðina að þetta hefði verið komið í einhverja framkvæmdaáætlun, að fara í þessa yfirlögn.” 

Spurður hvort send verði ályktun eða kvörtun á borð Vegagerðarinnar segir Jón Björn að það fari allt eftir þeim upplýsingum sem bæjarráðið fái í vikunni. 

„Við ákváðum að bíða aðeins og bíða betri upplýsinga svo við værum ekki að gera eitthvað sem þeir væru síðan búnir að bregðast við,” segir Jón Björn og bætir við að ákvörðun verði tekin um framhaldið á bæjarráðsfundi eftir viku.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð.
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð. Ljósmynd/Aðsend

Keyrir ekki sjálfur þar sem blæðing er

Nefnir hann að það hafi komið verulega á óvart hve snögglega Vegagerðin hafi brugðist við blæðingunum og einnig að um sé að ræða nýja aðferð til að takast á við blæðingarnar en vaninn hefur verið að notast við sand. Það hafi hins vegar ekki alltaf góð áhrif því sandur hafi í för með sér steinkast.   

„Þegar við erum að mætast á sandi þá auðvitað kastast undan bílum og þá ertu kominn með þannig áhrif líka.” 

Nefnir Jón að umferðaröryggi sé ekki mikið á vegum þar sem bikblæðinga er vart. Þessu finni hann fyrir á bílnum sínum og kemur hann ekki nálægt vegunum þegar hann keyrir um á mótorhjólinu sínu.

„Ég fer ekki út á svona blæðingar. Ég var að spá í að fara upp á Egilsstaði í gær en ákvað að fara ekki upp eftir þegar ég heyrði að það væri blæðing.” 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert