„Ég mun ekki taka þátt í prófkjöri aftur“

Brynjar endaði í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík …
Brynjar endaði í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun ekki bjóða sig fram á lista Sjálfstæðisflokksins ef listinn verður ákveðinn með prófkjöri. 

Frá þessu greindi hann í hlaðvarpinu Ein pæling, sem Þórarinn Hjartarson stýrir.

„Ég mun ekki taka þátt í prófkjöri aftur, ég get bara sagt fólki það,“ sagði hann aðspurður.

Fer ekki fram fyrir annan flokk

Hann sagði að breyta þyrfti fyrirkomulaginu ef hann ætti að vera í framboði aftur.

„Ég ætla ekki að taka þátt í svona rugli, hvarflar bara ekki að mér.“

Hann sagðist þó vera mikill liðsmaður og að hann myndi ekki fara í framboð fyrir annan flokk.

Voru óhressir með hvar hann endaði

Brynjar endaði í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2021 og var því í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður. Árið 2017 var hann í 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík suður.

„En ég fer ekki í prófkjör því að ég varð auðvitað var við það að Sjálfstæðismenn voru mjög óhressir með það að ég væri allt í einu bara kominn út í móa, eða þannig séð. Sögðu “þú mátt ekki hætta” og fóru á taugum yfir því að ég myndi hætta.

Ég segi bara ókei, þið eruð bara með eitthvað fyrirkomulag, og kallið það lýðræðisveislu sem er bara mjög takmörkuð lýðræðisveisla í raun. En þetta er bara svo ríkt í Sjálfstæðisflokknum að vera með prófkjör,“ sagði hann.

„En þá er hann án mín“

Hann fór í grófum dráttum yfir reglurnar í prófkjörum og hvernig þær stuðluðu að smölun að hans mati.

„Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera í þessu áfram þá bara er hann í því. En þá er hann án mín, enda er ég ekkert ómissandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert