Heilbrigðisvísindasvið HÍ undir eitt þak

Áslaug Arna og Jón Atli, rektor Háskóla Íslands, við undirritun …
Áslaug Arna og Jón Atli, rektor Háskóla Íslands, við undirritun samningsins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það á bara að gerast sem fyrst,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is, innt eftir svörum um hvenær framkvæmdir hefjist á nýju húsnæði heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Í dag undirrituðu Áslaug Arna, fulltrúar Háskóla Íslands og ÞG verks samning um uppsteypu og frágang á nýja húsnæðinu.

Áætlað er að byggingin verði vera rúmlega 10.000 fermetrar að flatarmáli, en nýbyggingin mun tengjast Læknagarði. Þá er gert ráð fyrir að húsið verði komið upp árið 2026 og í fulla notkun árið 2028. 

Mikilvægt skref fyrir heilbrigðismenntun 

Áslaug segir húsnæðið vera mikilvægt skref fyrir heilbrigðismenntun á Íslandi

„Þetta mun skipta öllu máli fyrir heilbrigðismenntun á Íslandi, bæði að koma mismunandi greinum og rannsóknum undir eitt þak, en það er forsenda þess að fjölga nemendum á þessu sviði að innviðir og aðstaða sé með betra móti.“

Teikning af fyrirhugaðri nýbyggingu og endurbættum Læknagarði.
Teikning af fyrirhugaðri nýbyggingu og endurbættum Læknagarði. Teikning/TBL arkitektum

Jafnframt bindur hún vonir við að með tilkomu nýs húsnæðisins sé hægt að vekja athygli á fleiri greinum innan heilbrigðisvísindasviðs og efla aðsókn við sviðið.

„Ég vona að það muni vekja athygli á fjölbreytum greinum heilbrigðisvísinda og að við getum mannað þær vel. Forsenda þess að við getum eflt gæði heilbrigðiskerfisins er mannauður, betri aðstaða og betri tenging við spítalann.“

Úr níu byggingum í eina

Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, segir daginn fagnaðarefni. Hingað til hefur heilbrigðisvísindasviðs verið með starfsstöðvar á níu stöðum um alla borg, en með tilkomu nýs hús, geta allar deildir sviðsins starfað undir sama þaki.

Hverju breytir þetta fyrir heilbrigðisvísindasvið?

„Þetta breytir því að við vinnum sem ein heild í nálægð við hvert annað. Það skiptir miklu máli að ná nálægðinni og samstarfinu á milli ólíkra hópa, sem eru með ólíka sérhæfingu. Þannig náum við árangri í vísindunum og í kennslu.“

Þá segir hún einnig mikilvægt að nemendur geti hisst í óformlegum samskiptum yfir daginn og að það sé góður undirbúningur áður en komið er út í atvinnulífið.

„Það skiptir máli að hitta fólk í óformlegum samskiptum, í mötuneyti eða við kaffivél, þar sem skapast allskonar frjóar umræður og eðlileg samskipti. Mér finnst það eðlilegt að nemendur venjist því áður en að komið er út í atvinnulífið.“

Kostnaður hleypur á 11 milljörðum

Áætlaður kostnaður vegna nýs húss heilbrigðisvísindasviðs nemur 11,4 milljarðar króna án virðisaukaskatts og dreifist á árin 2024 til 2028.

Samkvæmt Áslaugu eru fjárheimildir vegna verkefnisins í nýsamþykktri fjármálaáætlun og kemur fjármagnið frá Happdrætti Háskóla Íslands. 

Kostnaður vegna uppsteypunnar sem var skrifað undir í dag nemur 750 milljón króna í ár, 2.750 milljón króna árið 2025 og 550 milljón króna árið 2026, eða samtals 4.050 milljón króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert